Aldrei mælst meira af þorski og gullkarfa

Deila:

Stofnvísitala þorsks og gullkarfa eru þær hæstu síðan mælingar hófust árið 1996. Vísitala ýsu er nú nálægt meðaltali tímabilsins. Vísitala veiðistofns djúpkarfa hefur hækkað undanfarin ár eftir sögulegt lágmark en nýliðun er áfram mjög léleg. Vísitala veiðistofns grálúðu hefur hækkað jafnt og þétt frá árinu 2006 þegar hún var í lágmarki. Stofnvísitölur margra tegunda, eins og ufsa, langlúru, skarkola, þykkvalúru, keilu, löngu, gulllax og litla karfa mældust háar og í mörgum tilfellum þær hæstu frá árinu 1996. Stofnar hlýra, tindaskötu og skrápflúru eru hinsvegar í sögulegu lágmarki.

Þetta eru helstu niðurstöður stofnmælingar botnfiska að haustlagi (haustralli) sem fór fram í 21. sinn dagana 4. október til 9. nóvember sl. Rannsóknasvæðið var umhverfis Ísland allt niður á 1500 m dýpi. Alls var togað með botnvörpu á 375 stöðvum. Rannsóknaskipið Árni Friðriksson RE og togarinn Ljósafell SU voru notuð til rannsóknarinnar.

„Helsta markmið haustrallsins er að styrkja mat á stofnstærð botnlægra nytjastofna á Íslandsmiðum með sérstakri áherslu á djúpkarfa, grálúðu og aðra djúpfiska. Auk þess er markmiðið að fá annað mat, óháð aflagögnum, á stofnstærð þeirra nytjastofna sem Stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum (marsrall) nær yfir, og safna upplýsingum um útbreiðslu, líffræði og fæðu tegundanna.

Niðurstöðurnar sem hér eru kynntar eru mikilvægur þáttur árlegrar úttektar Hafrannsóknastofnunar á ástandi helstu nytjastofna við landið sem lýkur með veiðiráðgjöf í júní 2018,“ segir í frétt frá Hafrannsóknastofnun.

Nánari niðurstöður um stofnvísitölur, útbreiðslu, meðalþyngdir og hitastig sjávar má finna í skýrslunni Stofnmæling botnfiska að haustlagi 2017: Framkvæmd og helstu niðurstöður.

 

 

Deila: