Nýr Páll Jónsson smíðaður fyrir Vísi
Forsvarsmenn Vísis hf. í Grindavík hafa skrifað undir samning um nýsmíði á 45 metra löngu og 10,5 metra breiðu línuskipi við skipasmíðastöðina Alkor í Póllandi. Skipið kemur til landsins á miðju ári 2019 og er fyrsta nýsmíðin af þessari stærðargráðu í 75 ára sögu útgerðar á vegum Vísisfjölskyldunnar og sú fyrsta í rúmlega 50 ára sögu Vísis. Samningsverðið er 7,5 milljónir evra eða sem nemur tæplega einum milljarði króna.
„Með nýja skipinu fáum við öflugt, hefðbundið þriggja þilfara línuskip þar sem eitt þilfarið verður fyrir áhöfnina. Við erum stoltir yfir því að skipið er hannað á Íslandi af skipaverkfræðingum hjá NAVIS, Kjartani Viðarssyni, útgerðarstjóra Vísis og rafmagnhönnun og smíði er frá Raftíðni í Reykjavík . Við hyggjumst áfram leggja áherslu á línuveiðar og vera með fimm skip í rekstri, þannig að hvert skipanna eigi sinn virka dag til löndunar í hverri í viku. Nýjasti fiskurinn fer til vinnslu í frystihúsinu, en sá eldri verður unninn í salt eins og áður,” segir Pétur Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis.
Nýsmíðin er þriðja verkefnið sem pólska skipasmíðastöðin vinnur fyrir Vísi. Á næsta ári kemur mikið endurbyggð Arney (fyrst Skarðsvík) úr klössun í Póllandi og verður nýr Sighvatur GK 57, en eldra skip með sama nafni hverfur úr flota Vísis. Í raun er ekkert eftir af gamla skipinu nema 2/3 af stálinu. Fyrir hálfu öðru ári kom Fjölnir GK 657 úr allsherjar klössun þar sem allt er nýtt um borð nema vélarrúmið. Páll Jónsson GK 7 fer úr flota Vísismanna fyrir nýtt skip með sama nafni á næsta ári og að sögn Péturs er vonast til að endurnýjun flotans ljúki á næstu þremur árum með endurbyggingu á Jóhönnu Gísladóttur GK 557 og væntanlega nýsmíði fyrir Kristínu GK 457.