Állinn át ýsuna innan frá
Maður vikunnar var úti á sjó að draga línuna út af Stafnesi þegar Kvótinn hringdi í hann í gær. Hann er Júlíus Magnús Sigurðsson, skipstjóri á beitningarvélarbátnum Daðey GK.
„Það er kopp, stefnir í fimm tonn, stór og fallegur fiskur. Eðlilegt miðað við árstíma tíma,“ sagði Júlli.
Honum fellur sjaldan verk úr hendi og krókarétti hann tvö bjóð meðan hann var að spjalla við blaðamanninn.
Nafn?
Júlíus Magnús Sigurðsson.
Hvaðan ertu?
Fæddur og uppalin í Grindavík.
Fjölskylduhagir?
Ég er giftur Hólmfríði Karlsdóttur og á tvö uppkomin börn, sem búa í bænum og einn 9 ára gutta og 21 árs stjúpson heima.
Hvar starfar þú núna?
Skipstjóri á Daðey GK.
Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?
Ég held það séu 30 ár sem ég byrjaði að vinna á fullu í sjávarútvegi 16 ára og hef verið að nánast sleitulaust síðan. Byrjaði þá hjá á Óla Eldhamri á bölum. Var reyndar búinn að vera tvö sumur þar á undan á handfærum með pabba.
Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?
Ég held það sé bara fjölbreytnin í veiðunum. Var lengi á frystitogurum og síðan annað eins á línubátum. Búinn að prófa þetta mest allt og líkar vel.
En það erfiðasta?
Erfiðast er bara þetta íslenska veður. Það er erfitt á smábátunum. Fjarverurnar taka líka á.
Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?
Það hefur nú margt verið skrítið. Það er mjög eftirminnilegt þegar við vorum að róa á Daðeyinni í Kanada um árið, forum þangað með bátinn. Við fengum ekki atvinuleyfi og þurftum að skrá gamla „réttinda“ karla sem ekkert kunnu á bátinn. Við vorum skráðir tveir Íslendingarnir sem leiðbeinendur og drógum línuna tveir. Hinir voru handónýtir. Þeir voru hræddir við þetta mikla fiskirí á svona lítinn bát, héldu að báturinn sykki á landleiðinni enda veiðin ævintýraleg, enn meiri en hér heima.
Einu sinni lagði ég línuna ofan í töluvert dýpi. Hún kom hlaðin af fiski upp. Helmingurinn var fullur af háfi og hinn helmingurinn stór ýsa full innan af slímál, sem var að éta hana innan frá. Það var búið að éta hana alla innan frá, engan fisk hægt að nýta. Svo skreið áll um allt dekkið hjá okkur. Kanadamennirnir höfðu séð þetta áður, en fyrir okkur var þetta mjög sérstakt.
Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?
Þeir eru margir eftirminnilegir, en held að pabbi standi þar uppúr þó hann sé ekki hávaxinn.
Hver eru áhugamál þín?
Íþróttir; golfið er ofarlega á listanum og stangveiðin. Annars hef áhuga á að horfa á allar íþróttir.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Wellington nautalund matreidd af Hólmfríði. Það besta sem ég hef smakkað.
Hvert færir þú í draumfríið?
Fer á hverju ári til Flórída, en mig langar að prufa að fara til Hawaii.