Mesti kolmunnaafli á þessum áratug

Deila:

Kolmunnaaflinn á nýliðnu ári varð alls ríflega 224.000 tonn, sem er mesti kolmunnaafli okkar Íslendinga á þessum áratug. Heimildir til veiða nú voru ríflega 247.000 tonn og voru óveidd um áramótin um 23.000 tonn. Megnið af því hefur verið flutt yfir á þetta ár.

Veiðar á kolmunna í upphafi árs eru nokkurri óvissu háðar, þar sem ekki hefur náðst samkomulag milli Íslands og Færeyja um gagnkvæma fiskveiðisamninga milli þjóðanna. Því hafa allar veiðiheimildir beggja þjóðanna innan lögsögu hinnar verið afturkallaðar. Það hefur meðal annars í för með sér að Íslendingum eru ekki lengur heimilaðar veiða á kolmunna innan lögsögu Færeyja.

Um 20 skip stunduðu beinar veiðar á kolmunna á síðasta ári og náðu þrjú þeirra meiru en 20.000 tonnum samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu. Aflahæsta skipið var Víkingur AK með 21.323 tonn. Næst kom Börkur NK með 20.718 tonn og í þriðja sætinu var Venus NS með 20.322 tonn.

Kolmunnaaflinn hefur vaxið mikið frá því árið 2011 en þá veiddust aðeins um 6.000 tonn. Hann hefur síðan þá aukist jafnt og þétt og varð um 215.000 tonn 2015, en féll reyndar niður í 187.000 tonn árið 2016.

Deila: