Veiðigjöld gætu líka hækkað

Deila:

Forsætisráðherra segir ekki búið að taka ákvörðun um lækkun veiðigjalda á litlar og meðalstórar útgerðir. Vinstri græn hafi verið hlynnt afkomutengingu veiðigjalda og því sé heldur ekki hægt að útiloka að veiðigjöld verði hækkuð á stóru útgerðirnar. Þetta segir hún í samtali á ruv.is

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var í Morgunútvarpi Rásar tvö spurð út í frétt í Morgunblaðinu í morgun um að veiðigjöld á litlar og meðalstórar útgerðir yrðu lækkuð. Þetta staðfesta Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og formaður atvinnuveganefndar, og Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, staðfesta þetta í samtali við Morgunblaðið. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að afkomutengja veiðigjöldin.

Katrín segir ekki búið að taka ákvörðun um að lækka heldur sé verið að horfa til næsta fiskveiðiárs 2018 til 19.

„Og það er í raun og veru í takt við okkar stefnu að hafa þetta afkomutengt þ.e.a.s. miðað við arðsemina, í raun og veru veiðigjöldin. Og það liggur fyrir að við höfum talið að þetta sé þessi aðferðafræði sem hefur verið notið, nú er komin ákveðin reynsla á hana. Hún bitnar auðvitað talsvert harðar kannski á minnstu fyrirtækjunum sem eiga erfiðara með að bregðast við meðaltalssveiflunni í raun og veru því afkoman miðast við meðaltalið. Það sem er framundan í því er að endurskoða lögin fyrir nýtt fiskveiðiár 2018 og 19. Þannig að sú vinna fer fram á vormánuðum og markmið hennar er að afkomutengja gjöldin í ríkara mæli. Og það mun væntanlega verða til lækkunar á minni fyrirtækin. Ég útiloka ekki að það geti orðið til hækkunar á stærri fyrirtækin. Þannig að það er það sem er framundan.“

Katrín segir að veiðigjöldin hafi skilað mismiklu í ríkissjóð. Þau hafi skilað, ef hún muni það rétt ríflega sex milljörðum í hitteðfyrra en skili 10 til 12 milljörðum á næsta ári. Þau séu því mjög mismunandi milli ára. Það komi kannski betur út fyrir stærri útgerðirnar sem séu í færi til að gera sínar áætlanir en auðvitað þyngra fyrir minni fyrirtækin.

Engu sé hins vegar hægt að slá föstu nú, því samkvæmt lögum eigi eftir að skipa þverpólitíska nefnd sem fari yfir þetta. Hún segir að flokkarnir í ríkisstjórn séu ekki ósammála um að afkomutengja veiðigjöldin. Og það skipti máli að hafa að leiðarljósi að það séu ekki bara stærstu útgerðirnar sem lifi af.

 

Deila: