Botnfiskstofnar braggast

Deila:

Þorskstofninn við Íslandstrendur er í sögulegu hámarki síðan mælingar hófust árið 1996. Þá er ýsustofninn einnig að jafna sig eftir margra ára lægð. Flestar stofnvísitölur botnfiska eru upp á við samkvæmt stofnmælingum Hafrannsóknarstofnunnar síðastliðið haust.

Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunnar, var gestur á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Hann segir breytingar á stofnum í takt við þróun síðustu ára. „Við sjáum það að sjávarhiti við Ísland hefur verið mjög hár undanfarin ár, reyndar er aðeins kólnun núna en það er alltaf sveiflur. Útbreiðsla, stofnstærð hefur breyst gríðarlega. Fengum makrílinn hingað, loðnan er á móti komin lengst norður í höf. Við sjáum gríðarlegar breytingar. Sumar þessar breytinga eru jákvæðar og aðrar neikvæðar,” segir Sigurður.

Sigurður segir að þau hafi áhyggjur af loðnustofninum en loðnan er mikilvæg fyrir aðra nytjastofna eins og þorskinn. „Stærð og viðkoma loðnustofnsins ræður miklu fyrir aðrar tegundir. Bæði ungloðna og fullorðin loðna er norðar og vestar en við höfum séð áður. Sem hefur orsakað erfiðleika að ná á henni góða mælingu í tíma. Almennt má segja að það er allt að færast norðar. Suðlægari tegundir eru að koma hingað og norðlægari tegundir enn norðar,” segir Sigurður.

Hafrannsóknarstofnun ákvarðar vísitölu stofna með mælingum tvisvar á ári þar sem botnfiskur er veiddur á sömu stöðvum við landið með sömu veiðarfærum. Í niðurstöður haustrannsóknar nýliðins árs kemur fram að Þorskstofninn ásamt stofnum gullkarfa, ufsa, langlúru, skarkola, keilu og löngu eru í sögulegu hámarki. Á móti kemur að stofnar hlýra, tindaskötu og skrápflúru er í lágmarki.

Sigurður segir að vonandi verði hægt að veiða meira af þorski á næstu árum í ljósi nýjustu mælinga sem sýni að Hafrannsóknarstofnun er á réttri leið. Næsta stofnmæling verður í mars. „Við bindum vonir við að við getum lagt meiri orku í grunnrannsóknir til að skilja af hverju er stofn að minnka eða stækka í sambandi við umhverfið. Við höfum verið svolítið aðþrengt með fjármagn. Þannig að stór hluti okkar vinnu hefur verið í grunnmælingar á stofnstærð og ráðgjöfina. Við þurfum að styrkja okkur í rannsóknunum og fyrsta stigið í því er að endurnýja gamla skipið okkar, Bjarna Sæmundsson. Við bindum vonir við að það fari í næstu fjárlagaáætlun en við fengum viðbót í rannsóknir á uppsjávarfiskum sérstaklega loðnu,” segir Sigurður um fjárlög þessa árs.

 

Deila: