Tíðindaríkt ár að baki hjá Gæslunni

Deila:

Árið sem nú er að líða hefur verið býsna tíðindaríkt í starfi Landhelgisgæslunnar og verkefnin sem starfsfólkið hefur fengist við verið bæði fjölbreytt og sum hver óvenju krefjandi. Annáll Gæslunnar er birtur á heimasíðu hennar.

Eitt skýrasta dæmið um þetta eru miklar annir hjá flugdeild Landhelgisgæslunnar. Endanlegar tölur um fjölda útkalla á árinu 2017 verða birtar snemma á nýárinu en ljóst er að hann verður að minnsta kosti svipaður og metárið í fyrra þegar útköllin voru ríflega 250.

Af einstökum málum sem settu svip sinn á störf Landhelgisgæslunnar á árinu má nefna leitina að Birnu Brjánsdóttur og aðstoð við lögregluaðgerðir í tengslum við það hörmulega mál. Þá gegndu þyrlur Landhelgisgæslunnar mikilvægu hlutverki í aðgerðum vegna flóða á Suðausturlandi í haust. Stjórnstöð LHG skipulagði og stýrði erfiðri leit að erlendri skútu sem lenti í sjávarháska í sumar og hlutu starfsmenn þar sérstaka viðurkenningu bandaríska sjóhersins fyrir vikið. Nú á milli jóla og nýárs voru svo öll loftför Landhelgisgæslunnar kölluð út vegna alvarlegs rútuslyss nærri Kirkjubæjarklaustri.

Þrjár stórar alþjóðlegar æfingar voru haldnar hérlendis sem rétt er að nefna sérstaklega. Í júní tók Landhelgisgæslan þátt í kafbátaeftirlitsæfingunni Dynamic Mongoose hér við land, í október komu svo sprengjusérfræðingar alls staðar að úr heiminum saman á sextándu Northern Challenge æfingunni. Í september efndu svo samtök strandgæslustofnana á norðurslóðum (ACGF) til leitar- og björgunaræfingarinnar Arctic Guardian. Þá má líka nefna stuðning við vísindastarf, til dæmis flutning á búnaði í Surtsey í tengslum við alþjóðlegt borverkefni og flug með vísindamenn vegna vöktunar á eldstöðvum.

http://www.lhg.is/frettirogutgafa/frettir/aramotaannall-lhg-2017

 

 

Deila: