Brunaæfing um borð í Blængi

Deila:

Brunaæfing var haldin um borð í frystitogaranum Blængi NK sem lá í Norðfjarðarhöfn nú í upphafi árs. Æfingunni var stýrt af Slökkviliði Fjarðabyggðar og gekk vel í alla staði. Guðjón B. Magnússon, öryggisstjóri Síldarvinnslunnar, segir í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar, að æfing eins og þessi sé afar mikilvæg. Í henni séu æfð viðbrögð við eldi sem gæti komið upp um borð.

Í því sambandi er lögð áhersla á að áhöfnin kynni sér staðsetningu á öllum öryggisbúnaði og æfi notkun á honum. Þá eru menn einnig þjálfaðir í reykköfun. Telur Guðjón að æfing eins og þessi auki mjög öryggi áhafnarinnar og segir hann að stefnt sé að því að hafa sambærilegar æfingar með áhöfnum allra skipa Síldarvinnslunnar.

Guðmundur Sigfússon slökkviliðsstjóri segir að slökkviliðið sé afar ánægt með að efnt sé til brunaæfinga með áhöfnum skipa. „Við leggjum áherslu á forvarnir og hluti af því er að koma að æfingu eins og þessari. Slökkviliðið hóf samstarf við Síldarvinnsluna um brunaæfingar um borð í skipum árið 2014 en við teljum þörf á að efna til svona æfinga árlega. Sjómennirnir fara á fimm ára fresti í Slysavarnaskóla sjómanna og læra þar ákveðin grundvallaratriði en það er ekki síður mikilvægt að þeir hljóti þjálfun um borð í því skipi sem þeir eru á. Þeir þurfa að vita allt um staðsetningu öryggistækja um borð í eigin skipi, flóttaleiðir og fleiri öryggisatriði.

Þá er ávallt farið yfir öryggisbúnaðinn um borð þegar efnt er til brunanámskeiða eins og þessa og þá er ekki óalgengt að í ljós komi eitthvað sem betur má fara eða þörf er á að lagfæra. Almennt má segja að námskeið af þessu tagi auki mjög öryggi áhafnar enda eru brunar um borð í skipum afar erfiðir viðfangs og hættulegir mönnum. Þekking á öryggisbúnaði skips gerir það að verkum að hver einstaklingur er líklegri til að gefa honum gaum reglulega og bregðast við ef eitthvað er athugavert við ástand hans,“ sagði Guðmundur slökkviliðsstjóri.

 

Deila: