Annasamt á Hótel Grænuhlíð

Deila:

Miklir umhleypingar eru í veðrinu á landinu og miðunum þessa dagana og hver lægðin rekur aðra þessa vikuna. Undanfarnar klukkustundir hefur suðaustanstormur gengið yfir með tilheyrandi úrkomu og belgingi samkvæmt frétt á heimasíðu Landhelgisgæslunnar.

Eins og nærri má geta eru harla fá skip á sjó þegar bræla er á miðunum. 94 skip voru í ferilvöktunarkerfum stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar klukkan hálfsjö í morgun, þar af var 81 íslenskt. Eins og meðfylgjandi stöðumynd frá því á tíunda tímanum sýnir hafði hluti þessara skipa leitað vars undir Grænuhlíð á Ísafjarðardjúpi, eða Hótel Grænuhlíð eins og svæðið er stundum kallað á dögum eins og þessum. Átta togarar dóluðu þarna í rólegheitum í morgun.

Eftir því sem líður á daginn á veðrið að ganga niður. Á fimmtudaginn er hins vegar von á annarri djúpri lægð og síðan enn annarri á laugardagskvöldið þannig að gera má ráð fyrir áframhaldandi önnum á Hótel Grænuhlíð.

 

Deila: