Bannað að sjóða humar lifandi

Deila:

Svissnesk yfirvöld hafa bannað þann gamla sið veitingahúsa að sjóða humar lifandi. Frá og með fyrsta mars næstkomandi taka gildi ný lög um velferð dýra og í þeim felst að bannað verður að sjóða humarinn lifandi. Aðeins verður leyfilegt af drepa humarinn með rafmagnsstuði eða dauðrota hann með einhverju verkfæri fyrir matreiðslu eða afhausa.

Þá hafa svissnesk yfirvöld bannað flutning á lifandi humri og öðrum skelfiski á ís eða í krapa. Honum skal haldið í náttúrulegra umhverfið við flutninga. Þessum reglum hefur verið tekið vel af dýraverndarsamtökum, sem halda því fram að humarinn finni til, en margir matreiðslumeistarar hafa brugðist illa við, enda vilja þeir halda sig við ítalska og franska matarmenningu.

Spurningin um hvort humar og önnur skeldýr eins og krabbar finni til hefur verið umdeild lengi og eru vísindamenn  misjafnrar skoðunar í þeim efnum. Svissnesk stjórnvöld segja að ákvörðunin um bannið sé byggð á velferð og réttindum dýra. Þau segi að til séu fleiri aðferðir við matreiðslu humars sem fari betur með hann en að sjóða lifandi.

Þau segja ennfremur að sum dýraverndarsamtök hafi vilja banna allan innflutning á lifandi humri til Sviss, en það hafi ekki talist samræmast alþjóðlegum lögum um frelsi til verslunar.

Auk Sviss hefur Nýja-Sjáland bannað að sjóða humar lifandi.

 

 

Deila: