Umdeildar „rafmagnsveiðar“

Deila:

Franskir sjómenn líkja veiðisvæðum sínum við eyðimörk eftir „rafmagnsveiðar“ nágranna sinna. Evrópuþingið vill banna veiðarnar með öllu samkvæmt frétt á ruv.is

Fiskveiðar með rafmagni eru víðast hvar bannaðar en Evrópusambandið hefur veitt undanþágur, til dæmis í Norðursjó. Mest er veitt af alls kyns flatfiski með þessum hætti. Hollendingar hafa veitt mest en nágrannar þeirra, bæði Frakkar og Bretar, hafa gagnrýnt þessa veiðiaðferð og segja hana valda miklu tjóni.

Við hefðbundnar veiðar er poki dreginn eftir botninum og skemmdir sem pokinn veldur eru helstu rök talsmanna nýrra veiðiaðferða.

Rafmagnsveiðarnar fara þannig fram að slóði er dreginn eftir botninum sem gefur fiskunum stuð, þeir fljóta upp af botninum og hægur vandi að safna þeim í pokann þar.

Rafmagnsveiðarnar voru ræddar á Evrópuþinginu í Strassborg í dag. Stefna Evrópusambandsins er að auka veiðar í Norðursjó. Fram til þessa hafa aðildarríkin mátt veiða allt að fimm prósent heildaraflans með nýstárlegum aðferðum, og veiðar af þessu tagi falla undir það. Óvíst er um framhaldið því 402 þingmenn vilja banna rafmagnsveiðarnar, en 232 vilja halda tilraununum áfram.

 

Deila: