Fjögur fyrirtæki hljóta viðurkenningar fyrir samstarf
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra afhenti í gær viðurkenningar til fjögurra fyrirtækja innan Íslenska sjávarklasans sem skarað hafa framúr við að efla samstarf við önnur fyrirtæki.
Fyrirtækin sem hlutu viðurkenningu eru Navis, Evris, Iceland Sustainable Fisheries og Knarr Maritime. Navis hlýtur viðurkenningu fyrir að efla samstarf tæknifyrirtækja um hönnun á umhverfisvænum skipum. Evris hlýtur viðurkenningu fyrir að efla samstarf við ýmis fyrirtæki innan klasans um þátttöku í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum. Iceland Sustainable Fisheries hlýtur viðurkenningu fyrir að hafa komið á víðtæku samstarfi útgerða um vottun á sjávarafurðum. Þá hlýtur Knarr Maritime viðurkenningu fyrir að efla samstarf tæknifyrirtækja um heildstæðar skipalausnir fyrir alþjóðarmarkað.
Þetta er fjórða árið sem Íslenski sjávarklasinn veitir þessar viðurkenningar. Tilgangurinn með viðurkenningunum er að hvetja fyrirtæki til að efla samstarf sín í milli og styrkja þannig enn frekar Ísland sem forystuland í sjávarútvegi.