Sex skip með meira en 2.000 tonn af loðnu
Sex skip hafa nú landað meiru en 2.000 tonnum af loðnu á vertíðinni, en aðeins átta skip hafa landað loðnu nú, samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu. Alls hefur samkvæmt honum verið landað tæpum 17.000 tonnum, en tölur um endanlegan afla úr hverri veiðiverð skipanna berast yfirleitt ekki fyrr en að löndun lokinni.
Skipin sem nú eru komin yfir 2.000 tonnin eru Víkingur AK með 2.859 tonn, Venus NS með 2.796 tonn, Sigurður VE með 2.371 tonn, Beitir NK með 2.215 tonn, Börkur NK með 2.166 tonn og Vilhelm Þorsteinsson með 2.151 tonn.
Leyfilegur heildarafli íslensku skipanna nú er 127.000 tonn að óbreyttum kvóta. Loðnuleiðangur Hafrannsóknastofnunar stendur nú yfir og er frétta af honum að vænta fljótlega.