Færeyingar fá meira fyrir fiskinn

Deila:

Færeyingar fluttu utan sjávarafurðir að verðmæti 136 milljarðar íslenskra króna. Það er aukning í verðmæti um 11%. Alls fóru utan 446.000 tonn af afurðum sem er 1% minna en á sama tíma í fyrra.

Útflutningur á laxi skilaði 62 milljörðum íslenskra króna. Það er vöxtur um 9% og magnið jókst um 3%.

Verðmæti útflutts uppsjávarfisks, makríls, síldar og kolmunna, var 29 milljarðar króna. Það er aukning um 16% og munar þar mestu um verulega aukningu í síldinni, en samdráttur er í kolmunnanum.

Mikil aukning er í afurðaflokknum aðrar afurðir, sem skilaði nú 10,6 milljörðum, sem er 3,8 milljörðum meira en á sama tíma í fyrra. Þar er bróðurparturinn fiskimjöl.

Útflutningur á botnfiski, þorski, ýsu og ufsa, var 37.600 tonn, sem er 6% vöxtur. Verðmætið varð tæpir 19 milljarðar, sem er 7% aukning.

Á myndinni landar færeyski báturuinn Nupur afla sínum í Grindavík.

Ljósmynd Hjörtur Gíslason

 

Deila: