Burt með plastpokana

Deila:

Meginniðurstaða tilraunar, sem gerð var í sumar í samstarfi Matís, Háskóla Íslands, Eurofins og Tempru er að ekki er nauðsynlegt að pakka ferskum fiskflökum í plastpoka fyrir pökkun í frauðplastkassa, sem geyma og flytja á við kældar og ofurkældar aðstæður. Um þetta má fræðast nánar í skýrslu Matís nr. 07-17, sem vistuð er á vefsíðu Matís .

Markmið tilraunarinnar var að rannsaka mögulegt flæði stýrens úr frauðplastkössum í fersk þorsk- og karfaflök, sem geymd eru við dæmigert hitastig í sjóflutningi á ferskum flökum frá Íslandi til Evrópu eða Ameríku. Amerískir kaupendur óska eftir því að fiskflökum sé pakkað í plastpoka fyrir pökkun í frauðplastkassa vegna mögulegrar stýrenmengunar úr frauði í fisk. Því var í þessu verkefni mælt stýren í fiski, sem geymdur hafði verið án plastpoka í frauðkössum, og magn stýrens borið saman við viðmið bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitsins (FDA).

Í heildina voru 12 frauðkassar, sem innihéldu þorsk- eða karfaflök, geymdir í 4, 7 eða 13 daga við annaðhvort -1 °C eða 2 °C, sem samsvarar annars vegar ákjósanlegasta og hins vegar hæsta líklega hitastigi í sjóflutningi með fersk flök. Eitt 10-50 g sýni var tekið úr neðsta hluta neðsta fiskflaks í hverjum kassa og hafði þar með verið í beinni snertingu við frauðplast og því komið fyrir í glerflösku. Því næst voru sýnin 12 send til greiningar hjá Eurofins, alþjóðlegri rannsóknastofu í Þýskalandi. Niðurstöðurnar sýna að magn stýrens, sem og annarra óæskilegra efna líkt og bensens og tólúens, var undir 0,01 mg/kg fisks í öllum tólf fisksýnunum. Viðmið (hámark) FDA er 90 mg af stýreni í hverju kg af fiski á einstakling á dag, sem jafngildir skv. niðurstöðum þessarar tilraunar er að neytandi þarf að neyta daglega 9000 kg af fiski til að nálgast viðmið FDA sem er mjög óraunhæft magn.

Meginniðurstaða þessarar tilraunar er því að ekki er nauðsynlegt að pakka ferskum fiskflökum í plastpoka fyrir pökkun í frauðplastkassa, sem geyma og flytja á við kældar og ofurkældar aðstæður.

 

Deila: