Kæra laxeldisleyfi á Suðurfjörðum
Hópur náttúruverndarsamtaka, veiðiréttarhafa og landeigenda hefur kært útgáfu starfs- og rekstrarleyfa fyrir auknu 14.500 tonna laxeldi í Patreksfirði og Tálknafirði til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Farið er fram á ógildingu leyfanna. Um þetta er fjallað á ruv.is
Stóraukið eldi
Umhverfisstofnun og Matvælastofnun veittu fyrirtækjunum Arctic Seafarm og Fjarðarlaxi, nú Arnarlaxi, starfs- og rekstrarleyfi fyrir stóraukni laxeldi í Patreksfirði og Tálknafirði í lok desember. Arctic Sea Farm fékk leyfi fyrir 6.800 tonna framleiðslu og Arnarlax, Fjarðarlax, leyfi fyrir 10.700 tonnum.
Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarfélagið Laxinn lifi, veiðiréttarhafar og landeigendur eru meðal kærenda en kærendur telja sig eiga mikilla hagsmuna að gæta og að sjókvíaeldið stefni lífríki laxveiðiáa í hættu víða um land.
Ekki tekið tillit til athugasemda
Í kæru vegna starfsleyfis Arctic Seafarm segir að fjölmargar athugasemdir hafi borist vegna fyrirhugaðs starfsleyfis en að þær hafi verið virtar að vettugi og leyfið gefið út nær óbreytt. Þá segir í kæru vegna rekstrarleyfis Arctic Sea Farm að Matvælastofnun hafi gefið það út án þess að gefa kost á athugasemdum.
Segja annmarka vera á leyfunum
Kærendur segja að vanræksla leyfisveitenda og annmarkar á leyfunum og útgáfum þeirra valdi ógildingu þeirra. Í kærunni eru gerðar athugasemdir við fordæmalausa stærð eldisins, sammögnunaráhrif laxeldis í fjörðunum, magn úrgangs, upplýsingar til almennings sem og áhrif eldisins á aðra nytjafiska. Þá er ein aðalahtugasemd kærenda að þeir telja íslensk stjórnvöld ekki hafa rétt til að afhenda eignar- og afnotarétt að hafsvæði við landið, til þess skorti lagaheimild.
Fyrr í janúar kærði sami hópur útgáfu starfsleyfis fyrir 4.000 tonna laxeldi Arctic Sea farm í Dýrafirði.