Mun minna úr Barentshafi í fyrra

Deila:

Níu íslenskir togarar lönduðu afla úr Barentshafi á síðasta ári. Þorskafli þeirra er samtals rétt rúmlega 10.000 af slægðum þorski samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu. Auk þessa er meðafli þeirra af öðrum tegundum líklega nálægt 1.800  tonnum, en hann er ekki tíundaður á aflastöðulistanum. Aflaverðið gæti verið um 3,5 milljarðar króna. Það er rúmlega milljarði minna en árið áður miðað við verð og gengi síðasta árs.

Þetta er mun minni afli en árið áður þegar þorskaflinn var samtals 13.585 tonn og meðafli nálægt 2.400 tonnum. Svipaða sögu er að segja af árinu 2015.

Leyfilegt er að vera með 30% meðafla af öðrum tegundum samtals miðað við þorsk. Meðafli í fyrra, sem er mest ýsa, var heldur lakari en árin þar á undan.

Aflinn innan lögsögu Noregs var 6.860 tonn miðað við óslægt. Heimildirnar voru aðeins 22 tonnum meiri svo segja má að þær hafi verið fullnýttar. Aflinn í rússnesku lögsögunni var samkvæmt listanum 3.216 tonn af slægðum þorski og eru þá ónýttar heimildir upp á um 1.000 tonn. Það eru tvö skip, sem skráð eru fyrir megninu af þeim heimildum. Örfirisey RE með 538 tonn óveidd og Snæfell EA með 478 tonn óveidd. Örfirisey er að hefja veiðar í Barentshafinu á ný nú í janúar, en skipið hefur verið frá veiðum nokkurn tíma vegna bilunar.

Árið 2016 var svipaður afli sóttur í norsku lögsöguna, 6.825 tonn af þorski, en meira tvöfalt meira í þá rússnesku en í fyrra, alls 6.760 tonn af þorski auk meðafla. Þá voru möguleikar til leigu afaheimilda nýttir mjög vel og voru leigð yfir 2.000 tonn á íslensku skipin þá, en ekkert í fyrra.

Af þessum níu togurum er Kleifaberg RE með mest úr Barentshafinu á síðasta ári. Þorskafli þess þar er 2.235 tonn af slægðum þorski auk meðafla. Skiptist hann nokkuð jafnt milli lögsagna Rússa og Norðmanna. Oddeyrin kemur næst með 1.719 tonn og er um þriðjungur þess tekinn Rússamegin, en hitt innan norsku lögsögunnar. Í þriðja sætinu er Þerney RE með 1.556 tonn, allt úr norsku lögsögunni. Sigurbjörg ÓF kemur svo næst með 1.518 tonn, þar af 540 úr rússnesku lögsögunni. Þá kemur Arnar HU með 1.230 tonn, þar af 439 tonn frá Rússum. Fimmta skipið, sem landaði afla úr úr rússnesku lögsögunni er Örfirisey með 625 tonn þaðan. Þá hafa þrjú skip eingöngu landað afla úr norsku lögsögunni, en þau eru Snæfell EA með 443 tonn, Gnúpur GK með 395 tonn og Sólbakur EA með 355 tonn.

Leyfilegur heildarafli innan norsku lögsögunnar nú er um 6.000 tonn. Eftir nokkrar tilfærslur eru tvö skip með meira en þúsund tonna heimildir í þorski. Sólberg ÓF er með 1.340 tonn og Örfirisey með 1.181 tonn.

Ljósmynd Þorgeri Baldursson.

 

Deila: