Eimskip opnar skrifstofu í Kaupmannahöfn

Deila:

Eimskip opnaði í janúar nýja skrifstofu í Kaupmannahöfn og eflir með því enn frekar þjónustu sína við viðskiptavini félagsins. Skrifstofan er staðsett á Norðurbryggju við gamla hafnarsvæðið í Kaupmannahöfn, í nálægð við alþjóðaflugvöllinn í Kastrup.

Skrifstofan í Kaupmannahöfn mun leggja aukna áherslu á Sjálandssvæðið með því að samræma enn frekar þær alhliða flutningalausnir sem félagið býður upp á. Nær þetta til alls þjónustuframboðs félagsins, hvort sem um er að ræða flutninga á landi, í lofti, á sjó eða smásendingar. Áfram er það markmið Eimskips að bjóða upp á framúrskarandi flutningaþjónustu til og frá heimamarkaði félagsins á Norður- Atlantshafi sem og í flutningsmiðlun.

Eimskip hefur ráðið Mikkel Kristensen í starf sölustjóra en hann starfaði áður hjá Worldstrans Air-Sea Service A/S og býr yfir mikilli reynslu á sviði sölu og flutningsmiðlunar.

„Með einstakri staðsetningu í Kaupmannahöfn munum við geta veitt alhliða þjónustu á sviði flutningsmiðlunar, ekki einungis til fyrirtækja innan samstæðu Eimskips og alþjóðlegra samstarfsaðila þess, heldur einnig til viðskiptavina á þessu svæði sem stuðlar að áframhaldandi vexti félagsins. Hið nýja skipulag styður vel við framtíðarstefnu fyrirtækisins,“ segir Bragi Þór Marinósson, framkvæmdastjóri Alþjóðasviðs Eimskips.

Um Eimskip

Eimskip er leiðandi flutningafyrirtæki á Norður-Atlantshafi með tengingar við alþjóðlega markaði og sérhæfingu í flutningsmiðlun um allan heim, með þá framtíðarsýn að vera framúrskarandi í flutningalausnum og þjónustu. Eimskip var stofnað árið 1914 og er með hlutabréf sín skráð á Nasdaq Iceland. Félagið rekur 63 starfsstöðvar í 20 löndum í fjórum heimsálfum, er með 22 skip í rekstri og hefur á að skipa um 1.830 starfsmönnum.

Um Norðurbryggju

Norðurbryggja í Kaupmannahöfn er sameiginlegt menningarsetur Íslendinga, Færeyinga og Grænlendinga. Húsið á sér merka sögu en það var byggt sem pakkhús á árunum 1766-67 á uppfyllingu í Kristjánshöfn, gegnt Nýhöfn. Þar var miðstöð verslunar við eyjarnar í Norður-Atlantshafi og var húsið upphaflega nefnt „Íslenska pakkhúsið”. Hið nýja nafn, Norðurbryggja, vísar til þeirra orða Vigdísar Finnbogadóttur að það sé eins og bryggja til Norður-Atlantshafsins.

 

Deila: