Cókó og kleins til styrktar LHG
Vegfarendur sem hafa átt leið út að Gróttu á Seltjarnarnesi undanfarna laugardaga hafa væntanlega rekið augun í myndarlegan sölubás merktan Cókó og kleins í bak og fyrir. Þar eru á ferðinni bræðurnir Daníel og Róbert Stefánssyni sem selja gestum og gangandi kakó og kleinur. Viðtökurnar hafa verið afar góðar enda er fátt meira hressandi í vetrarkuldanum en rjúkandi heitt kakó og nýsteiktar kleinur.
Þessir ungu athafnamenn láta hluta af ágóða veitingasölunnar renna til Landhelgisgæslunnar. Skýringin á því er að þegar faðir þeirra slasaðist alvarlega um borð í hvalveiðiskipi fyrir nokkrum árum flutti þyrla Landhelgisgæslunnar hann á sjúkrahús.
Á föstudaginn komu svo Daníel og Róbert í heimsókn í flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli. Að lokinni ítarlegri skoðun á þyrlu- og flugvélakostinum afhentu þeir bræður Þórarni Inga Ingasyni flugstjóra fé til styrktar þyrlusjóði Landhelgisgæslunnar. Þórarinn var flugstjóri í ferðinni örlagaríku þegar faðir þeirra bræðra fór með þyrlunni á sjúkrahús.
Þórarinn og félagar hans í áhöfn TF-SYN voru nýlentir eftir æfingu með Slysavarnaskóla sjómanna þegar bræðurna bar að garði. Því var ákveðið að bjóða þeim í stutt útsýnisflug yfir Vesturbæinn og Seltjarnarnesið. Aðspurðir að loknu flugi sögðu þeir bræður að ferðin hefði verið „alveg geðveik,“ enda ekki amalegt að geta virt fyrir sér sölusvæðið við Gróttu úr lofti.
Ljósmynd Árni Sæberg.