Nýja Hafborgin EA í stað tveggja báta

Deila:

Í flota Grímseyinga bættist nýtt skip í vikunni þegar Hafborg EA 152 kom til landsins frá Hvide Sande í Danmörku þar sem það var smíðað. Skipið er í eigu Óla Þorlákssonar, útgerðarmanns í Grímsey og fjölskyldu hans en í stað nýja skipsins verða tveir bátar útgerðarinnar seldir, þ.e. eldra skip með sama nafni og númeri, sem og línu- og færabáturinn Kolbeinsey EA 252. Nýja skipið er 26 metra langt og átta metra breitt, búið til veiða með net og dragnót.

Fengu vitlaust veður á heimleiðinni

„Hafborgin stóð sig afar vel á heimsiglingunni en við fengum fína reynslu á skipið því það var alveg vitlaust veður á leiðinni frá Danmörku til Færeyja. Þetta er gott sjóskip, það er enginn vafi,“ segir Óli í samtali við tímaritið Ægi en hann og sonur hans, Guðlaugur, hönnuðu skipið í samstarfi við Ráðgarð Skiparáðgjöf ehf. Smíðin var boðin út á sínum tíma og komu tilboð frá mörgum löndum en niðurstaðan varð að semja við stöðina í Hvide Sande í Danmörku og það segir Óli að hafi verið góð ákvörðun.

Óli er hér í brúnni með sonarsyninum, Hafsteini Mána Guðlaugssyni.

Óli er hér í brúnni með sonarsyninum, Hafsteini Mána Guðlaugssyni.

„Stöðin er þrautreynd í smíði á bátum eins og þessum. Skrokkurinn sjálfur var smíðaður í Póllandi en síðan var smíðinni lokið í Danmörku. Handbragðið hjá Dönunum er einstaklega gott og þeir eru afar liðlegir í öllum samskiptum og kunna sitt fag. Ég get hiklaust mælt með því að velja þessa leið í nýsmíði,“ segir Óli.

Eftir er að setja netaspil um borð og snúningsband í lestina en það kemur frá Vélaverkstæðinu Þór í Vestmannaeyjum. Búnaður er að stærstum hluta frá Danmörku en Sónar ehf. seldi öll fjarskipta-, fiskileitar- og siglingatæki í brú, frá Kælingu ehf. er krapakerfi fyrir lest. Aðalvél skipsins er Yanmar.

Gjöldin ógna útgerðunum

„Ég er mjög ánægður með skipið og smíðina en það er auðvitað bilun að leggja út í þetta við þær aðstæður sem útgerðum eru skapaðar á Íslandi í dag. Veiðileyfagjöldin eru orðin verulega íþyngjandi sem best sést á því að þau ásamt fiskmarkaðsgjöldum og hafnargjöldum taka 18% af tekjunum eins og þetta er núna. Það sjá allir að þetta getur ekki gengið,“ segir Óli en hann reiknar með að halda til veiða síðari hluta febrúarmánaðar.

„Ég reikna með að við verðum mikið á dragnótinni en förum líka á netin. Það er kappnóg af fiski og að mínu mati ættum við að veiða miklu meira af þorski en við gerum. Verndarstefnan á þorskinum í 30 ár hefur ekki skilað nema lítilli aukningu í afla en við erum aftur á móti að sjá sífellt stærri fisk á miðunum. Stundum getur hist þannig á að við fáum mjög gott verð fyrir hann á mörkuðunum en hann getur líka verið of hátt hlutfall af aflanum. Stærstur hluti kaupenda er að sækjast eftir þessum 5+ fiski í stærð.“

Ljósmyndir Jóhann Ólafur Halldórsson.

Góð aðstaða er á millidekkinu.

Góð aðstaða er á millidekkinu.

Matsalurinn er rúmur og vistlegur.

Matsalurinn er rúmur og vistlegur.

 

Deila: