Grískur gullkarfaréttur

Deila:

Nú prófum við að elda karfa, þennan ágæta matfisk, sem þó er sjaldan á borðum okkar Íslendinga. Til að fá góða uppskrift leituðum við inn á netsíðuna Fiskur í matinn. Fiskur í matinn er vörulína frá Norðanfiski sem býður upp á ferskan fisk í notendavænum umbúðum og fæst í Bónus. Tegundir línunnar eru karfi, lax og þorskur. Norðanfiskur er framleiðslufyrirtæki sem sérhæfir sig í áframvinnslu sjávarafurða í stóreldhús- og neytendapakkningar. Fyrirtækið var stofnað árið 2001 og hjá því starfa um 30 manns.
Höfundur uppskriftar er Oddur Smári Rafnsson

Innihald:

  • 800 g gullkarfahnakkar
  • 100 g sólþurrkaðir tómatar
  • 100 g heilar, steinlausar ólífur
  • 3 hvítlauksgeirar úr olíu, saxaðir
  • 1 lúka klettasalat, saxað
  • 5 msk fetaostur (taka vel af olíunni með, þar sem að hún bragðbætir vel)
  • ½ rauð paprika skorin í teninga
  • 5 msk möndlur eða salthnetur, saxaðar
  • Salt og pipar

Aðferð:

Skerið karfann í bita og setjið í eldfast form og saltið og piprið smá. Saxið sólþurrkuðu tómatana, klettasalatið, hvítlaukinn og paprikuna og ristið saman á pönnu. Dreifið þessu jafnt yfir fiskinn, fetaostinum og söxuðu möndlurnar/hnetunum og hellið loks smávegis af olíunni af fetaostinum yfir réttinn. Eldið í 8–12 mín í 200°C heitum ofni.

 

Deila: