Skip SVN með mestar heimildir í kolmunna

Deila:

Leyfilegur afli af kolmunna á þessu ári er alls 299.000 tonn, eftir að tekinn hefur verið til hliðar hlutur hins opinbera úr heildarúthlutun upp á 294.000 tonn og við heimildirnar bætt 23.000 tonnum, sem flutt hafa verið yfir á þetta ár af heimildum þess síðasta. Þetta er mesti kvóti síðustu 10 árin. Í fyrra var kvótinn tæp 250.000 tonn en mun minni næstu ár þar á undan. Mestur hefur kolmunnaafli okkar Íslendinga orðið 501.000 tonn árið 2003.

Miðað við fyrstu úthlutun í ár, og hefur þá ekkert verið flutt milli skipa, aðeins ónýttar heimildir frá því síðasta, er Beitir NK með mestar heimildir. Rétt rúmlega 39.000 tonn. Á hæla honum kemur Börkur NK með 36.625 tonn, sem Síldarvinnslan gerir þessi tvö skip út. Næst Koma HB Grandaskipin Víkingur AK og Venus NS með 31.500 tonn hvort skip og síðan skip Eskju, Aðalsteinn Jónsson SU og Jón Kjartansson SU með 28.900 tonn hvort skip.

Önnur skip eru með mun minni heimildir en alls fá 15 skip úthlutað heimildum  svo nokkru nemi og þrjú til viðbótar með smotterí. Kolmunninn fer allur í bræðslu og veiðist mest af honum innan lögsögu Færeyja. Skipin eru nú þar að veiðum, en engar landanir hafa verið tilkynntar enn.

 

 

Deila: