Tilefni til að leyfa meiri loðnuveiði?

Deila:

Mælingum Hafrannsóknastofnunar á stærð og útbreiðslu loðnustofnsins lauk í síðustu viku. Samkvæmt mælingunum er stærð stofnsins áætluð hin sama og í haust eða 849 þúsund tonn. Í samræmi við gildandi aflareglu er því lagður til 285 þúsund tonna heildarkvóti á vertíðinni eða 14 þúsund tonnum minna en í fyrra. Viðbótin nú frá byrjunarkvótanum, sem gefinn var út í haust, er því 77 þúsund tonn. Þar af koma um 55 þúsund tonn í hlut íslenskra skipa.

,,Það er ljóst að niðurstaðan úr mælingum Hafrannsóknarstofnunnar er okkur mikil vonbrigði,” segir Garðar Svavarsson, framkvæmdastjóri uppsjávarsviðs HB Granda í samtali á heimasíðu félagsins. Bæði uppsjávarveiðiskip félagsins,Venus NS og Víkingur AK, hafa verið að loðnuveiðum með góðum árangri í janúar en þau hættu bæði á loðnu í síðustu viku vegna óvissu um framhaldið.

,,Bæði skipin eru nú farin til kolmunnaveiða. Á þessari stundu liggur ekki fyrir ákvörðun um hvernig framhaldi loðnuveiða verður háttað,” segir Garðar en hann segist hafa vonast til að ágætlega heppnuð haustmæling Hafrannsóknarstofnunnar yrði staðfest með sambærilegri mælingu nú í vetur.
,,Hafrannsóknarstofnun fór tvisvar yfir áætlað útbreiðslusvæði loðnunnar nú í vetur og mældi þar loðnu við kjöraðstæður. Ekki reyndist marktækur munur á niðurstöðum þessa þriggja mælinga og stofninn var metinn 849.000 tonn. Það vekur furðu okkar að eftir þrjár yfirferðir með sambærilegri niðurstöðu skuli óvissa mælinga vera svo há að ekki sé tilefni til að úthluta meira en 285.000 tonnum.”
Garðar segir að útgerðarmenn standi með vísindamönnum í þeirri vegferð að ná sem best utan um stöðu loðnustofnsins og tryggja að nýting hans sé með ábyrgum hætti.
,,Það verður hins vegar að eiga sér stað málefnalegt samtal um hvort núverandi óbreytt aflaregla sé best til þess fallin að tryggja hámarks afrakstur með ábyrgum hætti. Ég geri ráð fyrir því að þetta samtal muni eiga sér stað á komandi mánuðum. Verkefnið núna er að fara yfir það með Hafrannsóknastofnun hvaða kostir eru í stöðunni. Trú okkar er að tilefni sé til að leyfa meiri loðnuveiði, ákvörðun um slíkt verður þó eingöngu tekin ef niðurstaða frekari mælinga gefur tilefni til þess,” segir Garðar Svavarsson,

 

Deila: