„Að vona og vinna“
Suðurnesjafyrirtækið Maron ehf. er eitt fárra fyrirtækja í sjávarútvegi, sem byggir afkomu sína nánast eingöngu á netaveiðum og er jafnframt á kvótaleigumarkaðnum. Útgerðarstjóri fyrirtækisins, Sigvaldi Hólmgrímsson, segir að þetta gangi aðeins með þrotlausri vinnu og því að vinna fiskinn sjálfir. Hann er í rekstrinum ásamt föður sínum Hólmgrími Sigvaldasyni og auk útgerðar þriggja báta verka þeir fiskinn í Keflavík.
Bátarnir eru Maron, Grímsnes og Halldór afi, allt netabátar. Grímsnesið er 200 tonn, Maron 80 tonn og Halldór afi er 20 tonn. „Pabbi er búinn að vera í þessu síðan ég veit ekki hvenær. Ég byrjaði sjálfur í þessu 1998 og við feðgarnir erum búnir að reka þetta saman frá 2003, þannig að maður er kominn með einhver ár á bakið,“ segir Sigvaldi.
Á leigumarkaðinum
Bátarnir hafa nánast eingöngu verið gerðir út á net. Þeir eru nánast kvótalausir og Sigvaldi segir að með því að vera á leigumarkaðnum, sé eina leiðin að vera á netum. Leiguverðið sé það hátt að það verði koma með stóran og verðmætan fisk að landi til að dæmið eigi möguleika á að ganga upp. Séu menn á línu sé það stöðugur barningur. Mjög erfitt sé að stjórna því hvað komi á línuna og útgerðin sé dýr.
Sigvaldi segir að nú sé leiguverðið á þorskinum um 170 krónur á kílóið plús veiðigjald og því samtals ríflega 190 krónur. Hann segir að það séu ægileg slagsmál á þessum kvótamarkaði. Þetta gangi með því að menn séu að vinna í þessu á fullu sjálfir. Þannig hafi menn laun út úr þessu en meira sé það ekki. Aflinn er vigtaður inn í Slægingu ehf og gert að honum og HSS fiskverkun ehf, saltar fiskinn svo fyrir markað í Portúgal.
Fæst ekki upp á fatlaðan hund
Á síðasta ári var afli bátanna þriggja og eins til viðbótar, Steina Sigvalda, rúmlega 2.000 tonn. „Ég er ekki með þetta alveg á hreinu. Ég er bara útgerðarstjóri hér, pabbi hugsar um reksturinn á þessu öllu. Við erum mest á þorski, en höfum veriðað reyna að vera á ufsanum á haustin með misjöfnum árangri. Þessi haust eru bara algjört ógeð, það fiskast ekki neitt. Það fæst bara ekki upp á fatlaðan hund, en samt verður maður að gera bátana út til að halda mannskap. Það er ekki bara hægt að fleyta rjómann af þessu.
Nú er vertíð að skella á af fullum krafti, en það hefur verið hrikaleg ótíð að undanförnu og ekkert fiskirí. Þá verður reynt að moka upp eins og hægt er. Við viljum helst vera inni í Flóanum. Þar er fallegasti fiskurinn. Um leið og maður er kominn í meiri strauma, er farið að sjá aðeins meira á greyinu. Við erum salta fiskinn af bátunum okkar og þegar maður er á leigumarkaðnum, verður maður að vera með 100% afurð. Ástæðan fyrir því að þetta hefur gengið hjá okkur, er að miklu leyti gæðin á saltfiskinum hjá okkur. Við erum með 9 tommu möskva og erum að taka mest svona 10 kílóa fisk óslægðan. Á vertíðinni er svo reyndar komið upp undir 30% inn í hann af innvolsi, lifur og hrognum og æti.
Hreint ævintýri
Almennt hafa síðustu vertíðar verið hreint ævintýri út í eitt. Það er nóg af fiski á vertíðinni, en svo hverfur þetta bara eins og dögg fyrir sólu. Við förum svo á löngu eftir vertíðina. Síðan förum við líklega á rækju á Grímsnesinu í sumar. Við erum líka með makrílkvóta, sem við höfum tekið í flottrollið. Það er því svona eitthvað í boði á sumrin en það fer mikið eftir verðum hvað við gerum. Verðið á makríl er bara orðið brandari og borgar sig ekki að sækja hann. Þetta er orðin skelfing dauðans. Fyrsta árið voru að fást 50 krónur fyrir kílóið, síðan 80 krónur og síðan hefur þetta hrunið og var í fyrra komið ofan í 30 krónur og það er ekki hægt að gera út á svo lágt verð.“
Netabátum hefur fækkað jafnt og þétt undanfarin ár og Sigvaldi telur að skýringin á því sé hve stuttan tíma á árinu það sé hægt að vera á netum. Reyndar séu línubátarnir í krókakerfinu núna að reyna að koma sér í netaveiðar líka.
Þessi útgerð er öll að detta upp fyrir. Þegar verðið á þorskinum hækkaði aðeins fóru nokkrir af stað í leigukerfinu. Til dæmis var mikil spenna á snurvoðinni því það var góð veiði í hana fyrir vestan. Um leið og framboðið á þorskinum eykst á ný lækkar verðið og þá detta menn bara út. Það er ekkert hægt að gera út bát á einhverjum 50 til 60 kalli. Ef menn eru að verka líka, er hægt að ná aðeins meiru út úr þessu.
Lágt afurðaverð
Afurðaverð erlendis er bara mjög lágt. Við erum náttúrulega vera búnir í kreppu hér og síðar í Evrópu. Þá náðu þeir verðunum niður og síðan er svo erfitt að ná þeim upp aftur. Þetta jafnar sig á einhverjum tíma, það er því bara að halda áfram. Þetta er bara eitthvað sem maður gerir; að vinna og vona. Maður safnar skulum á haustin, sem borgast niður á vertíðinni. Svona er þetta búið að vera síðustu 20 árin og ég efast um að þetta breytist nokkuð. Á einhverjum tímapunkti hættir maður svo að nenna þessu. Kallinn er búinn að vera á kafi í þessu í áratugi og hann lætur aldrei neinn bilbug á sér finna, kominn á sjötugsaldurinn á kafi í þessu allan sólarhringinn. Það er eina leiðin til að láta þetta ganga og það er kannski ástæðan fyrir því að það eru svo fáar kvótalausu útgerðirnar í dag. Þetta er rosaleg vinna,“ segir Sigvaldi Hólmgrímsson.
Myndir Hjörtur Gíslason.