Marel leiðandi í sölu rafeindavoga fyrir sjávarútveginn

Deila:

Fyrir fjórum áratugum síðan lagðist hópur íslenskra háskólamanna og frumkvöðla á Raunvísindastofnun Háskóla Íslands á eitt við að þróa  rafeindavogir sem leysa átti eldri mekanískar vogir af hólmi. Hugmyndin var að auka verðmætasköpun í íslenskum fiskiðnaði með því að gera mönnum kleift að minnka yfirvigt og að skrá og safna upplýsingum um hráefnið. Í þessu verkefni liggja rætur Marel.

Þar var árið 1978 sem RH vogin, fyrsta rafeindavogin kom fram á sjónarsviðið og hún var frumgerð fyrir það sem koma skyldi. Vogir sem komu þar á eftir gátu sem dæmi skráð fisktegund, þyngd, stærðarflokk og vinnsluleið. Hugmyndin var að innleiða lausn sem gat skráð upplýsingar sem auðvelduðu útreikninga við að greiða einstaklingsbónusa tengdum nýtni og afköstum og bæta þar með rekstur fiskvinnsluhúsanna stórlega.

Fyrsta skrefið hafði þar með verið stigið í umbyltingu í vinnsluaðferðum í matvælaiðnaði, byggðri á örtölvu- og rafeindatækni, og árið 1983 er Marel formlega stofnað.

Fyrsta rafeindavogin frá Marel

Þetta er fyrsta vogin í sögu Marel og var hún hönnuð árið 1978 á Raunvísindastofnun Háskóla Íslands. Dr. Rögnvaldur Ólafsson stóð að verkefninu og hafði sér til fulltingis verkfræðingana Jón Þór Ólafsson og Brand St. Guðmundsson.

Tilgangurinn með verkefninu var að þróa nákvæmar rafeindavogir með hjálp hinnar nýju örtölvutækni og að nýta þessa tækni til að skrá upplýsingar um vinnsluna í fiskvinnsluhúsum. Það sem menn sáu fyrir sér var að með því að skrá flæði fisks og hvernig hann nýttist, væri hægt að greiða einstaklingsbónusa fyrir nýtni og afköst og bæta þar með rekstur fiskvinnsluhúsa stórlega.

Pökkunarvogir

Næsta skref í þróun vogarbúnaðar og skráningartækja var að búa til hraðvirkari og nákvæmari vog til að vigta fisk í pakkningar.

Árið 1979 þróaði Raunvísindastofnun Háskóla Íslands pökkunarvog. Sú varð síðan fyrsta vogin sem framleidd var undir vörumerkinu Marel en fyrstu tækin voru merkt HÍR.

Pökkunarvogirnar buðu upp á að slá inn markþyngd frá ytra lyklaborði eða frá miðlægri tölvu, og prenta út vigtarskýrslur á prentara. Sérstakur ljósaskali sýndi frávik frá réttri þyngd og hermdi þannig eftir vísinum á eldri vélrænum vogum.

Marel sýningarbás frá 1984 í Noregi þar sem ýmsar vogir voru til sýnis en þar var fyrsti erlendi markaðurinn sem Marel kynnti sjóvogina.

Marel sýningarbás frá 1984 í Noregi þar sem ýmsar vogir voru til sýnis en þar var fyrsti erlendi markaðurinn sem Marel kynnti sjóvogina.

Árið 1980 kynnti Marel nýja línu af pökkunarvogum, PV5002, þar sem sama grunnhönnun var notuð, en nú var rafhúsið úr stáli og flest rafbretti endurhönnuð. Helsti kostur nýrrar pökkunarvogar var aukin hraðvirkni, en einnig að auðvelt var að þjónusta vogina og hentaði hún því vel í erfiðara umhverfi eins og matvælavinnslu.

Sjóvogir

Vert er að nefna skipavogina sem Marel kynnti til leiks árið 1985. Vogin var útfærð þannig að hún gæti vigtað nákvæmt á sjó og byggði að miklu leyti á tölvutækni frá öðrum Marel vogum auk tvöfalds mælibúnaðar til þess að tryggja nákvæmni. Fyrirtækið náði strax yfirburðarstöðu á alþjóðlegum markaði með sjóvoginni og heldur þeirri stöðu enn þann dag í dag.

Vogarhausar

Árið 1989 var hannaður nýr vogarhaus hjá Marel sem kom á markað ári seinna. M2000 vogarhausinn sameinaði tækni og notkunarmöguleika sem höfðu áður verið til staðar í einstökum vogum. Nýi vogarhausinn var fjölhæfur og var nýttur jafnt í flokkara, sem og venjulegar skráningar-, flokkunar- og pökkunarvogir. Þessi haus var framleiddur til ársins 2007.

M2000 vogir höfðu fleiri tengimöguleika en fyrri vogir og gátu líka stýrt ytri búnaði. Stýrimöguleikinn gerði Marel kleift að búa til margskonar sjálfvirk tæki önnur en vogir. M2000 var til dæmis nýttur í fyrstu skurðarvélar Marel.

Önnur nýjung í þessari kynslóð af vogum var nýr mælibúnaður sem var miklu betri en áður hafði þekkst í slíkum vogum. Þessi búnaður gerði mögulegt að vigta nákvæmar og hraðar en áður.

Skjástöðvar

Þegar ný skjástöð M3000 var tekin í notkun árið 1997 má segja að Marel hafi komist í beint samband við viðskiptavini sína. M3000 skjástöðin nýttist vel til að stýra bæði einstökum tækjum og heilum kerfum eins og flæðilínum. Með ytri mælabúnaði er t.d. hægt að búa til vogir og með myndavél er hægt að búa til skurðarvél eða sjónflokkara. Ytri stýrieiningar geta stýrt nánast hverju sem er og safnað upplýsingum.

Með LAN tengingu skjástöðvarinnar við tölvukerfi geta þjónustumenn Marel hjálpað viðskiptavinum sínum svo til hvar sem er í heiminum í gegnum internetið. Þetta er mjög mikilvægt, því miklu skiptir fyrir viðskiptavini að fá hraða og góða þjónustu.

Safnstöðvar

Marel var grundvallað á þeirri sýn að búa til vogir og skráningarbúnað til skráningar nýtni og flæðis fisks í fiskvinnsluhúsum. Þar sem vogirnar gátu ekki geymt mikið af upplýsingum, þá þurfti áreiðanlegt tæki til að safna þeim saman, vinna úr þeim og birta. Slíkt tæki var ekki til og því þurfti að búa það til.

SS2200 safnstöðin var hraðvirkt söfnunartæki sem safnaði gögnum og gat gengið fyrir rafhlöðu. Sérstakt forrit safnaði gögnum frá vogunum um leið og þau bárust. Þetta forrit gat einnig unnið skýrslur úr gögnunum og prentað þær út.

Ljóst var að PC tölvur yrðu alltaf betri og áreiðanlegri með tímanum og því var hafist handa við þróun arftaka SS200 á PC tölvu. Árið 1987 tóku PC tölvur við hlutverki SS200. Í dag er það Innova hugbúnaðarlausnin sem gegnir þessu hlutverki.

Pökkunar- og flokkunarvogir

M1100 vogin hefur reynst vel en hún er sérhönnuð fyrir einfalda notkun. Hún hraðvirk og nákvæm og aðallega ætluð til notkunar við pökkun og flokkun í erfiðu umhverfi, eins og matvælavinnslu á sjó og landi. Vogin var hönnuð til að nota litla orku og var fyrsta Marel vogin sem gat gengið fyrir rafhlöðum. Með tengingu við PC tölvu, límmiðaprentara og hugbúnað frá Marel, getur framleiðandi vigtað, flokkað og merkt vörur og umbúðir.

Vel hönnuð rafhús

Hönnun á rafhúsum utan um vogir og stýrihausa skipti ekki síður máli en rafeindavogirnar sjálfar. Rafhúsin hýsa tölvu-, mæla- og skjábúnað og urðu að vera hönnuð með þrifanleika og vatnsþéttni í huga.

Flest rafhúsin eru smíðuð með aðeins tveimur eða fjórum skrúfum og eru því mjög þjónustuvæn. Þjónustustarfsfólk getur auðveldlega opnað þau og sinnt viðgerðum þegar þess er þörf.

Notkunargildi var ekki það eina sem Marel lagði áherslu á. Aðlaðandi hönnun og flott útlit skiptu líka miklu máli og vinsæld tækjanna meðal viðskiptavina er meðal annars tilkomin vegna útlits.

Borguðu sig fljótt upp

„Marel rafeindavogirnar voru hraðvirkar og nákvæmar og gáfu upplýsingar um fjölda pakkninga og yfirvigt í lok dags. Þær borguðu sig fljótt upp því auðvelt var að lækka yfirvigt. Marel vogir voru frá upphafi hannaðar með tengingu fyrir miðlæga tölvu sem safnaði upplýsingum frá öllum vogunum í hverri verksmiðju, “  segir Jón Þór Ólafsson, verkfræðingur en hann vann ásamt Dr. Rögnvaldi Ólafssyni og Brandi St. Guðmundssyni að hönnun fyrstu Marel rafeindarvogarinnar við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands árið 1978.

Jón Þór Ólafsson

Jón Þór Ólafsson

„Frá fyrsta degi ætluðum við okkur að búa til heildstæða lausn sem myndi hjálpa verkstjórum í fiskvinnslu að fá góða yfirsýn yfir framleiðsluna, frekar en að búa aðeins til stakar vogir,“ segir Jón Þór. Strax í upphafi var ljóst að þörf var fyrir flóru af vogum til þess að mæta mismunandi notkunarþörfum, t.d. við að vigta inn í fiskvinnslu, vigta pallettur og setja rétt magn af fiski í pakkningar.

„Markmiðið okkar var að nýta nýja örtölvu- og rafeindatækni til þess að búa til nýja kynslóð voga sem myndu leysa mekanískar vísisvogir af hólmi. Við sáum fyrir okkur að það væri hægt að stórauka verðmætasköpun í íslenskum fiskiðnaði með því að skrá og safna upplýsingum um flæði og nýtingu fisks,“ segir Jón Þór.

Jón Þór hefur verið starfsmaður hjá Marel síðan 1983 þegar fyrirtækið var fyrst formlega stofnað og hann starfar enn hjá fyrirtækinu í Garðabæ.

Þessi umfjöllun birtist fyrir í blaðinu Sóknarfæri sem Athygli gefur út. Blaðið má lesa á eftirfarandi slóð:

https://issuu.com/athygliehf/docs/soknarfaeri_sjavarutv_1tbl_feb_2018?e=2305372/58404210

 

 

 

 

 

 

 

 

Deila: