Á loðnu út af Skagafirði
Í gærkvöldi og nú undir morgun fékk grænlenska loðnuskipið Polar Amaroq um 400 tonn af loðnu út af Skagafirði. Heimasíða Síldarvinnslunnar hafði samband við Geir Zoëga skipstjóra og spurði hvort þarna væri mikla loðnu að sjá.
„Já, hér er töluvert að sjá. Loðnan stendur hins vegar djúpt á daginn en kemur upp á næturnar. Það var bræla framan af í nótt en við köstuðum í gærkvöldi og undir morgun þegar veðrið skánaði. Alls var kastað fjórum sinnum. Fengum afla í þremur köstum en búmmuðum einu sinni. Hér ætti að vera hægt að fá góðan afla með djúpri nót og í þokkalegu veðri. Og við höfum verið að kasta skammt frá landi, það eru núna um 15 mílur í Hraun á Skaga.
Loðnan sem hér um ræðir er skemmra komin en loðnan fyrir sunnan. Hrognafyllingin er um 13%. Mér finnst afskaplega gaman að glíma við þetta og nú erum við búnir að fá afla hér fyrir norðan í tveggja sólarhringa vinnslu á meðan það er bullandi bræla og engin veiði við suðurströndina. Nú er veðrið að versna hérna en við ætlum að ná einu kasti í viðbót áður en brælir.
Í reyndinni ætti það ekki að koma mönnum á óvart að loðna sé hér við Norðurlandið. Á vertíðinni 2014-2015 hrygndi töluvert af loðnu hérna fyrir norðan og þessi loðna sem hér er nú er komin heim til að hrygna. Loðnan er laxfiskur og menn þekkja hegðun laxfiska. Annars virðist vera loðna mjög víða. Ég var núna að fá fréttir um að loðnutorfur væru á Halanum,“ sagði Geir.