Fiskeldið á Írlandi skilar miklu

Deila:

Umsvif sjávarútvegsins á Írlandi jukust um 6,4% og var framlag hans til þjóðarframleiðslunnar 160 milljarðar íslenskra króna á síðasta ári eða 1,15 milljarður punda. Það er í fyrsta sinn sem umsvifin fara yfir einn milljarð punda. Aukin velta er fyrst og fremst tilkomin vegna mikils vaxtar í fiskeldi.

Helstu þættir vaxatarins eru 12% aukning á útflutningstekjum sem urðu 42 milljarðar króna, 4% aukning á neyslu innan lands, en þar var veltan 60 milljarðar króna og loks umtalsverð aukning fjárfestingu bæði einkaaðila og hins opinbera upp á 54 milljarða króna.

Framleiðsluverðmæti úr fisk- og skelfiskeldi jókst um 24% og varð alls 29 milljarðar króna. Alls voru framleidd 20.600 tonn af fiski, mest laxi og 26.400 tonn af skelfiski. Laxeldið eitt og sér skilaði 20,5 milljörðum króna sem var vöxtur um 25%. Vöxturinn í írskum lífrænum laxi varð 40% mælt í verðmætum og framleiðsla á bláskel jókst um 53%. Um 14.000 manns hafa atvinnu við sjávarútveg og fiskeldi á Írlandi.

Þessar upplýsingar koma fram í skýrslunni the Business of Seafood 2017, sem gefin er út af stjórnvöldum.

Evrópusambandið er stærsti markaðurinn fyrir írskar sjávarafurðir en þangað fór fiskmeti að verðmæti 54,6 milljarðar íslenskra króna. Einnig fer mikið af sjávarafurðum frá Írlandi til landa í Afríku og Austurlanda fjær og nær og er aukningin þar yfir 10%.

Verðmæti landaðs fisks og skelfisks jókst um 7% og fór í 56 milljarða króna. Helsti löndunarstaðurinn er Kyllibegs með 17,4 milljarða í aflaverðmæti sem er vöxtur um nærri fjórðung frá árinu áður.

Sala á sjávarafurðum heimafyrir jókst um 4% og fór í 60 milljarða. Lax, þorskur og rækja njóta mestra vinsælda. Lax seldist fyrir 13 milljarða og þorskur fyrir tæpa 7 milljarða. Neysla á öðrum tegundum eins og ufsa og lýsingi jókst um 19%.

 

Deila: