Flestir róa á strandveiðum á eigin bátum

Deila:

95% eigenda báta á strandveiðum  sóttu veiðarnar sjálfir á bátunum sínum á síðasta ári og er það nokkur aukning frá árinu 2009 þegar 80% eigenda svöruðu spurningunni jákvætt. Að sama skapi er mun minna um að menn séu að borga öðrum til róa á móti sér eða með sér, eða einungis á 17% báta samanborið við 37% árið 2009.

Þetta kemur fram í skýrslu um strandveiðar sem Sjávarútvegsmiðstöð Háskólans á Akureyri  vann fyrir Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið.

Þegar spurt var hversu margir væru í áhöfn í hverjum veiðitúr voru 6,7% aðspurðra með 2 menn eða fleiri um borð. Í raun var aðeins ein útgerð með 3 eða fleiri í áhöfn. Í flestum tilvikum eða í um 80% tilvika voru laun ákvörðuð út frá hlut, 5% fengu greidd föst laun og 5% upp á akkorð.

„Hver dagur sem tapast á strandveiðum getur reynst dýrkeyptur. Ástæður þess að bátar fara ekki á sjó eru fyrst og fremst af tvennum toga, vegna bilana eða vegna veðurs. Að auki geta menn misst úr veiðum af ótilgreindum ástæðum. Því voru sjómennirnir spurðir hve marga daga þeir hefðu misst úr vegna bilana, veðurs og annarra skuldbindinga. Þrátt fyrir að bátar tilheyri sama svæði getur veður haft mismikil áhrif á fjarveru báta frá veiðum. Svæðin eru stór og bátar misvel búnir til að takast á við breytileika íslensks veðurs. Bátar á svæði A misstu fæsta daga enda er fæstum dögum úthlutað til veiða á því svæði. Á öðrum svæðum var meiri fjöldi daga í boði á árinu 2017 og því minni pressa að halda á veiðar. Gátu menn leyft sér að stjórna betur hvenær haldið væri til veiða,“ segir í skýrslunni.

 

Deila: