Norsk kolmunnaskip landa á Seyðisfirði og í Neskaupstað

Deila:

Síðustu daga hafa norsk kolmunnaskip landað á Íslandi í töluverðum mæli. Þrjú skipanna hafa landað í verksmiðjur Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði og í Neskaupstað, samtals 5.530 tonnum.

Ligrunn landaði á Seyðisfirði 1.550 tonnum á annan í páskum og sama dag landaði Knester í Neskaupstað 2.030 tonnum. Í gær landaði síðan Havskjer á Seyðisfirði 1.950 tonnum. Kolmunninn veiðist í skosku lögsögunni þar sem íslensk skip hafa ekki heimild til veiða.

Hafþór Eiríksson, verksmiðjustjóri í Neskaupstað, segir að kolmunninn úr norsku skipunum sé gott hráefni. „Veiðin er ágæt og skipin eru fljót að fylla þannig að hráefnið er tiltölulega ferskt þegar það kemur,“ sagði Hafþór í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

 

Deila: