Grænt ljós á aukið fiskeldi Hábrúnar í Skutulsfirði

Deila:

Á grundvelli fyrirliggjandi gagna er það niðurstaða Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð stækkun á fiskeldisleyfi Hábrúnar í Skutulsfirði er ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með tilliti til eðlis framkvæmdarinnar, staðsetningar hennar og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar. Því skal framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Þetta er niðurstaða Skipulagsstofnunar, en frá þessu er greint á heimasíðu Landssambands fiskeldisstöðva.
300 tonna stækkun
Um er að ræða aukningu á þorsk og regnbogasilungseldi Hábrúnar í allt að 700 tonn, sem er 300 tonnum stærra leyfi en fyrirtækið hefur núna. Fyrirhuguð áform fela í sér framleiðslu á allt að 700 tonnum af þorski og regnbogasilungi og er miðað við að lífmassi regnbogasilungs fari aldrei yfir 650 tonn og lífmassi þorsks verði aldrei meiri en 50 tonn.
Eldi stundað í Skutulsfirði frá árinu 2002
Í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila kemur fram að Hábrún ehf., (áður Álfsfell ehf., Glaður ehf. og Sjávareldi ehf.) hafi stundað eldi á þorski og regnbogasilungi í sjókvíum í Skutulsfirði síðan 2002 og hafi ársframleiðsla verið innan við 400 tonn á ári.

Dregur úr lífrænu álagi
Áform Hábrúnar ehf. í Skutulsfirði fela í sér aukningu á umfangi framleiðslu frá núgildandi starfsleyfi um 300 tonn, en því samhliða er hlutföllum milli þorsks og silung í eldi breytt sem leiðir af sér að fóðurstuðull lækkar og fóðurnýting eykst því samhliða. Þar með dregur úr lífrænu álagi sem fylgir.
Ekki áhrif á skipaumferð
Kannað var sérstaklega hvort fyrirhuguð stækkun hefði áhrif á skipaumferð um Skutulsfjörð. Hafnarstjóri Ísafjarðbæjar staðfesti í bréfi að innsiglingalína inn Skutulsfjörð sé 211° siglt inn í merkjum í Naustum á Kirkjubólshlíð og sé töluvert austan við það svæði sem úthlutað hafi verið undir fiskeldi. Af þessum sökum hafi hafnaryfirvöld á Ísafirði ekki gert athugasemdir við að eldiskvíar Hábrúnar verði áfram á því svæði sem úthlutað hafi verið.
Út frá stærð og umfangi framkvæmdarinnar og sammögnun sem og staðsetningu og eiginleikum hugsanlegra áhrifa framkvæmdarinnar telur Skipulagsstofnun að fyrirhuguð framkvæmd þurfi ekki að undirgangast mat á umhverfisáhrifum.

Deila: