Vanhugsaðar breytingar á strandveiði

Deila:

„Hér er verið að bjóða upp á lausatök við stjórn fiskveiða sem Íslendingar hafa einmitt mikla og slæma reynslu af,“ segir +i upphafi pistils á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Þar er fjallað um frumvarp til laga um breytingar á standveiðum. Pistillinn er svo hljóðandi:

„Frumvarp atvinnuveganefndar Alþingis til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða er nú rætt í sölum Alþingis og snýr breytingin að fyrirkomulagi strandveiða. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi sendu inn athugasemdir vegna frumvarpsins og vöruðu við samþykkt þess í óbreyttri mynd. Kemur þar ýmislegt til. Fyrirhuguð lagabreyting er í eðli sínu hluti flókins samhengis og erfitt getur verið að sjá fyrir allar þær afleiðingar sem af kunna að hljótast. Því töldu samtökin mikilvægt að frumvarp nefndarinnar yrði skoðað gaumgæfilega í ljósi allra ábendinga. Það var og er mat samtakanna að alvarlegir annmarkar séu á þeirri ráðstöfun við stjórn fiskveiða sem frumvarpið gerir ráð fyrir og rétt er að vekja hér athygli á nokkrum atriðum.

Í frumvarpinu er horfið frá því fyrirkomulagi að stöðva skuli veiðar þegar hámarksafla er náð. Í nefndaráliti atvinnuveganefndar, sem nú hefur verið birt, hefur ákvörðun um að stöðva skuli veiðar, eins og núverandi reglur gera ráð fyrir, verið breytt á þann veg, að ráðherra geti stöðvað veiðarnar. Það er grundvallarmunur á skal og getur. Sérstaklega þar sem gera verður ráð fyrir því, að samkvæmt nýju fyrirkomulagi verður mikill þrýstingur á ráðherra að auka við aflaheimildir þegar líður á veiðarnar. Einkum þar sem tryggja á tólf daga til veiða í hverjum mánuði á tímabilinu maí til ágúst.

Yfirlýst markmið með heimild til strandveiða þegar þær voru upphaflega settar á var áhersla á nýtingu sjávarauðlindarinnar með sjálfbærni að leiðarljósi og á ábyrgan hátt. Þá var gert ráð fyrir að strandveiðar myndu einkum takmarkast af þeim aflaheimildum sem ráðstafað væri sérstaklega til veiðanna.

Í nefndaráliti vekur eftirfarandi texti athygli: „Að mati nefndarinnar hefur verið dregið verulega úr líkum þess að veiðar þurfi að stöðva með því að heildarheimildir til strandveiða hafa verið auknar. Að mati nefndarinnar eru allar líkur á því að þær viðbótarheimildir sem um ræðir tryggi að á öllum svæðum verði unnt að stunda veiðar í 12 daga alla mánuðina. Þótt takmörkuðu magni sé ráðstafað til strandveiða er mikilvægt að fá reynslu á þetta nýja fyrirkomulag áður en það er fest frekar í sessi.“

Sem sagt: Það hefur verið dregið úr líkum á ofveiði, allar líkur eru á að viðbótarheimildir dugi og mikilvægt er að fá reynslu á þetta nýja fyrirkomulag.

Hér er verið að bjóða upp á lausatök við stjórn fiskveiða sem Íslendingar hafa einmitt mikla og slæma reynslu af, enda hefur ávallt verið miklum vandkvæðum bundið að stöðva veiðar smábáta í dagakerfi þegar tilsettum afla hefur verið náð. Í því samhengi er rétt að benda á að sé meðalveiði virkra báta á strandveiðum á hverju veiðisvæði frá árinu 2017 reiknuð miðað við 12 daga hvern mánuð má reikna með að ráðstafaðar aflaheimildir til strandveiða árið 2018 verði að fullu veiddar í fyrri hluta júlímánaðar. Þá á eftir að tryggja veiðar í seinni hluta júlímánaðar og 12 daga í ágúst og mikill þrýstingur settur á ráðherra eins og áður segir.

Hætt er við því að hér sé farið inn á ógæfulega braut með auknum líkum á umframafla þótt það sé sagt vera eingöngu í tilraunaskyni. Án efa yrði erfitt að leiðrétta orðinn hlut við slíkar aðstæður, ekki síst vegna sjónarmiða um jafnræði milli útgerða og landshluta en einnig af öðrum ástæðum. Ekki verður séð að gæfulegt væri að safna upp vanda af þessu tagi yfir sumarið til úrlausnar síðasta strandveiðimánuð ársins með þeim stjórnunarannmörkum sem af því myndu hljótast.

Í þessu er fólgin mikil orðsporsáhætta fyrir íslenskan sjávarútveg. Það byggist á eftirfarandi: Á Íslandi hafa verið settar nýtingarstefnur og aflareglur samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum sem eru afar mikilvægar, bæði út frá sjónarmiðum fiskveiðistjórnunar með sjálfbæra nýtingu að leiðarljósi og vegna samskipta við erlenda kaupendur sjávarafurða og vottunaraðila á því sviði. Allar stjórnunarráðstafanir sem eru til þess fallnar að auka líkur á afla umfram ákvörðun fela því í sér afturför. Mörg ár hefur tekið að koma á úrbótum í þessum efnum þannig að áformaður afli utan aflamarks sé rétt áætlaður við upphaf fiskveiðiárs og í samræmi við raunafla. Samtökin vöruðu eindregið við þessari hættu í tengslum við þá braut sem haldið væri á með samþykkt frumvarpsins. Hættan á umframafla sem erfitt yrði að leiðrétta þegar fram líða stundir er skýr. Við mat erlendra aðila á fiskveiðistjórnun íslendinga yrði slíkt kallað skekkja eða villa í framkvæmd eða „implementation error”. Afleiðingin gæti orðið sú að talin yrði þörf á að miða við varfærnara (lægra) veiðihlutfall en ella.

Í greinargerð með frumvarpinu segir: „Breytingin er sérstaklega valin nú með tilliti til þess að óveruleg hætta er á að nýtingarstefna í þorski, sem stjórnvöld hafa sett og framfylgt er með aflareglu, gangi ekki eftir.“ Þessi orð eru sérstaklega til þess fallin að vekja ugg um framhaldið. Það er einmitt með svona andvaraleysi sem hættan verður mest á því að grafið sé undan nýtingarstefnu og aflareglu. Hafa ber í huga að nýtingarstefna samkvæmt alþjóðlegri varúðarleið er ráðstöfun sem miðar að því að takast á við áhættu sem skapast meðal annars vegna óvissu í stofnmati. Þótt svo kunni að virðast að vel gangi er engu að síður ávallt hætta á ofmati stofns ekki síður en vanmati. Afleiðingar þess þekkjum við íslendingar vel af reynslunni varðandi þorskstofninn.

Að lokum þetta; íslensk stjórnvöld, í samstarfi við íslenskan sjávarútveg, hafa á liðnum áratugum gripið til margháttaðra aðgerða til að gera íslenskan sjávarútveg sjálfbæran og arðbæran þannig að óvíða í heiminum er sjávarútvegur rekinn á eins hagkvæman hátt. Það kerfi sem við búum við hefur ekki orðið til fyrir tilviljun heldur er það afrakstur mikillar vinnu og rannsókna. Þetta fyrirkomulag hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu og fótfesta íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja á alþjóðlegum markaði er að miklu leyti bundin þessu fyrirkomulagi. Ef sífellt er verið að hola kerfið að innan með illa ígrunduðum breytingum mun það, til lengri tíma, hafa slæm áhrif á afkomu fyrirtækja í sjávarútvegi og þar með afkomu fjölmargra fyrirtækja sem byggja afkomu sína á sterkum sjávarútvegi sem er í færum til að fjárfesta.“

 

Deila: