Marel í fararbroddi
„Það fór ekki framhjá gestum Seafood Processing Global sýningarinnar sem fór fram á dögunum í Brussel, að nú um stundir eiga sér stað miklar tækniframfarir við vinnslu sjávarafurða, ekki síst í aukinni sjálfvirkni og tengingu hugbúnaðar við hátæknivélar,“ segir í frétt á heimasíðu Marel.Þar segir ennfremur:
„Marel var að sjálfsögðu á sýningunni með sinn bás að kynna nýjustu vörur og þjónustu. Sjálfvirkar hátæknilausnir sem byggja á vélmennum og upplýsingatækni studdu við yfirskrift sýningarinnar, Snjallari vinnslur.
Aukin sjálfvirkni er forgangsatriði
„Þörfin fyrir aukna sjálfvirkni í fiskvinnslum er fyrst og fremst komin til vegna fækkun starfsfólks, einkum í Evrópu og Norður Ameríku,“ sagði Sigurður Ólason, framkvæmdastjóri fiskiðnaðarseturs Marel, í viðtali sem birtist í nýjasta fréttablaði Marel, Insight Fish. „Tækni og nýsköpun er svarið við þessum áskorunum.“
Í ljósi þessarar þróunar kom varla á óvart að sýning á pökkunarvélmennum vakti mikla athygli. Vélmennaarmarnir sem völdu og flokkuðu fisk hratt og af mikilli nákvæmni heilluðu viðstadda og viðskiptavinir sáu með eigin augum hvernig slík lausn getur aukið sjálfvirkni við fiskvinnslu enn frekar.
Máttur hugbúnaðar
Framþróun í hugbúnaðarlausnum á stóran þátt í þeirri auknu sjálfvirkni sem nú má sjá við framleiðslu matvæla. Fiskvinnslur verða sífellt snjallari eftir því sem hugbúnaðarvæðing nær til fleiri ferla vinnslunnar.
Í hátækniumhverfi öðlast gögn og upplýsingar sífellt meira vægi. Með því að bæta færni sína í að afla og greina upplýsingar í rauntíma geta fiskvinnslur bætt samkeppnishæfni sína með því að hámarka nýtingu og gæði og fá betri yfirsýn yfir framleiðsluna.
Marel hefur ávallt lagt ríka áherslu á að hanna tæki og lausnir sem auka gæði, framleiðni og afköst. Í dag er enn meiri þörf á að styðja fiskvinnslur við að ná árangri á þessum sviðum með aukinni sjálfvirkni. Innova hugbúnaðarlausnir frá Marel geta tryggt að viðskiptavinir okkar séu í vel stakk búnir fyrir áskoranir framtíðarinnar á sviði fæðuöryggis og rekjanleika.
„Samtengdar hugbúnaðarlausnir geta nú stýrt og vaktað ferð hráefnisins frá hafi til neytenda,“ segir Sigurður. „Í fjórðu iðnbyltingunni, sem er nú þegar hafin, munu ‘Big Data‘ og ‘deep learning‘ verða lykilstoðir í nýjum, hátæknivinnslukerfum.“