Veiðiferð hefst sé farið úr höfn

Deila:

Eins og fram hefur komið hafa strandveiðisjómenn velt því fyrir sér hvort ekki sé leyfilegt að hætta við róður þegar sýnt þykir að ekkert veiðist.  Af þessu tilefni beindi LS fyrirspurn til Fiskistofu þar sem beðið var um túlkun, t.d. hvort engin afli, engin löndun teldist til veiðidags samkvæmt færslu á heimasíðu LS.

Túlkun Fiskistofu er á þá leið „að fari fiskiskip úr höfn hefst veiðiferð og telst þá sem einn dagur af tólf í hverjum mánuði“.  Áhersla er lögð á „að skráning úr fjareftirlitsbúnaði fiskiskipsins skal lögð til grundvallar við útreikning sóknar (en ekki t.d. skráðar landanir úr aflaskráningakerfi Fiskistofu)“.

 

Í túlkun sinni leggur Fiskistofa til grundvallar 2. tl. 5. gr. reglugerðar um strandveiðar sem orðast svo:

Hver veiðiferð skal eigi standa lengur en 14 klukkustundir.  Miðað er við þann tíma er fiskiskip lætur úr höfn til veiða til þess er það kemur til hafnar aftur til löndunar.  Aðeins er heimilt að fara í eina veiðiferð á hverjum degi.  Nái bátur ekki af óviðráðanlegum ástæðum, s.s. vegna vélarbilunar, til hafnar innan 14 klukkustunda frá upphafi veiðiferðar getur Fiskistofa þó, að fengnum skýringum útgerðar, fallist á að skilyrði þessa töluliðar séu uppfyllt.

Skipstjóri skal tilkynna brottför úr höfn til vaktstöðvar siglinga handvirkt með talstöð um næstu strandstöð.  Í tilkynningu skal ávallt koma fram úr hvaða höfn haldið er í veiðiferð.  Fiskiskip skal hafa um borð sjálfvirkan fjareftirlitsbúnað og skal hin sjálfvirka skráning lögð til grundvallar við útreikning sóknar.  Óheimilt er að fara í veiðiferð nema fjareftirlitsbúnaður um borð sé virkur.  Bili búnaður í veiðiferð, skal strax tilkynna það til Landhelgisgæslu og halda tafarlaust til hafnar til löndunar.

LS vekur athygli á að ætli eigandi strandveiðibáts að nýta veiðidag til annarra athafna en veiða þá er nauðsynlegt að tilkynna slíkt þegar látið er úr höfn þannig að dagurinn telji ekki sem einn af leyfilegum 12 veiðidögum.

 

 

Deila: