Laxverð í sögulegum hæðum

Deila:

Mikil eftirspurn er nú eftir laxi og laxaafurðum á alþjóðlegum mörkuðum. Verð á laxi er í hæstu hæðum og framboð heldur ekki í við eftirspurn. Á mörkuðum hafa sést sölutölur fyrir lax á allt að 8,29 evrum, sem samsvarar um þúsund krónum á kíló. Verð á laxi hefur verið hátt undanfarin ár, lækkaði þó aðeins undir lok síðasta árs, en það hefur heldur betur snúist við.
Þetta kemur fram í fagtímaritum um fiskeldi,á borð við salmonbusiness.com og ilaks.no en sagt er frá þessu á heimasíðu Landssambands fiskeldisstöðva

Þessi mikla hækkun kemur vitaskuld fram í stórauknu verðmæti á útflutningi laxi og laxaafurðum frá Noregi, stærstu fiskeldisþjóð í heimi. Í aprílmánuði einum jókst útflutningur á laxi frá Noregi um fjögur prósent og nam um 74 þúsund tonnum. Verðmætið var hins vegar sem svarar um 66 milljörðum og hafði hækkað um níu prósent.

Til samanburðar var útflutningsverðmæti á þorski frá Íslandi allt árið í fyrra um 83 milljarðar.

Ef litið er til fyrsta ársfjórðungs þessa árs ( janúar til mars) fluttu Norðmenn út um 320 þúsund tonn af laxi, sem er aukning um 16 þúsund tonn frá sama tíma í fyrra. Verðmæti þessa var 2,2 milljarðar evra, eða um 264 milljarðar króna, sem er umtalsvert meira en sem svarar öllum útflutningi á íslenskum sjávarafurðum í heild í fyrra. Að því er fram kemur í ársskýrslu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi nam útflutningsverðmæti 197,1 milljarði króna og hafði lækkað um 15 prósent frá árinu á undan, meðal annars vegna lægra verðs, sjómannaverkfalls, sterkara gengis og fleiri þátta

 

Deila: