Stelpur kynnast tæknistörfum hjá Marel

Deila:

Í síðustu viku heimsóttu um 40 stelpur úr 9. bekk í Garðaskóla starfsstöðvar Marel í Garðabæ á vegum verkefnisins Stelpur og tækni sem Háskólinn í Reykjavík stendur að ásamt Ský og Samtökum iðnaðarins. Hópurinn fékk leiðsögn um starfsstöðina og kynntist fjölbreytileika starfa sem er í boði hjá Marel á ólíkum sviðum. Frá þessu er sagt á heimasíðu Marel.
Stelpur og tækni

“Girls in ITC” er dagur haldinn víða um Evrópu í apríl á hverju ári og er það Háskólinn í Reykjavík sem hefur haldið utan um daginn hér á Íslandi frá upphafi. Stelpum í 9. bekk í grunnskóla er boðið að sækja vinnusmiðjur í háskólanum um ýmis viðfangsefni, til dæmis kynnast þær forritun og gerð vefsíðu með tungumálum vefhönnunar, HTML og CSS, uppbyggingu tölvuleikja, þrívíddarprentun líffæra og brotaþoli beina. Í kjölfarið heimsækja þær svo tæknifyrirtæki þar sem þær fá innsýn í tækifæri sem bjóðast á vinnumarkaði.

Heimsóknin í Marel hófst með almennri kynningu á fyrirtækinu og starfsemi þess. Þaðan skiptu stelpurnar sér í smærri hópa og konur af ólíkum bakgrunni og starfssviðum leiddu hópana um sín svið og kynntu starfssemina sem fer fram í hverri deild fyrir sig. Samstarfskonur sögðu gestum frá menntun og reynslu sinni sem og frá starfi sínu hjá Marel.
Marel vogar og tækni kynnt með þrautum og leikjum

Með hjálp sýndarveruleika náði heimsóknin út fyrir Austurhraun og lá leið hópsins sem fékk leiðsögn um vöruþróun í Vísi. Þessi tækni, sem Marel vinnur nú að innleiða í vöruþróun og við fleiri vinnuferla, gerði hópnum kleift að skoða hvernig tæki og lausnir Marel nýtast í raun við fiskvinnslu en hópurinn fékk einnig að spreyta sig í leik við að taka upp fisk og henda í kör.

Í fylgd markaðssérfræðings og verkfræðings fékk annar hópur að sýna hugvit sitt í svokallaðri samvalsþraut sem gengur út á að raða plastkubbum af hinum ýmsu stærðum á vog og reyna að ná nákvæmlega 1,000 kg á vogina á innan við 60 sekúndum. Annar hópur lét reyna á máttinn í Kraftvoginni sem mældi hversu sterkt grip þær höfðu. Að lokum kynnti iðnaðarverkfræðingur í framleiðslustýringu fyrstu vogina sem markaði upphafi Marels og fræddi hópinn um þróun vogarinnar fram til dagsins í dag.
Fjölbreytileiki starfa kom á óvart

Flóra og fjöldi starfa í boði innan Marel vakti mikinn áhuga stelpnanna og fjöldi fyrirspurna um hvaða menntun þyrfti í hin ólíku störf barst frá hópum. Það kom mörgum á óvart hversu breiður hópur starfar hjá Marel og hversu fjölbreyttan bakgrunn starfsmenn hafa.

Við þökkum stelpunum fyrir þann áhuga sem þær sýndu og skemmtilegar fyrirspurnir. Við hlökkum til þess að fá enn fleiri upprennandi stelpur í heimsókn á næsta ári þegar Stelpur og tækni fer fram að nýju.

 

Deila: