Mikil aflaverðmæti á höfuðborgarsvæðinu

Deila:

Verðmæti fiskafla sem landað var á höfuðborgarsvæðinu í janúar síðastliðnum var 2,2 milljarðar króna. Það eru mest verðmæti miðað við landshluta samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands.

Næstmest verðmæti voru á Austurlandi, 1,8 milljarðar króna. Suðurnes fylgja þar fast á eftir með 1,7 milljarða og síðan Norðurland eystra með 1,6 milljarða. Þessir landshlutar skera sig verulega úr, en í öðrum er verðmæti landaðs afla miklum mun minna.

Verðmæti landaðs afla á Vestfjörðum var 515 milljónir og 502 á Vesturlandi. Á Suðurlandi var landað afla að verðmæti 465 milljónir og Norðurland vestra rekur lestina með aflaverðmæti upp á 207 milljarða.

Í flestum tilfellum ræður magnið heildarverðmætinu, eins og á Austurlandi, þar sem uppsjávarfiskur er mikill hluti aflans, en samsetning aflans skiptir einnig verulegu máli. Þannig er landaður afli á Höfuðborgarsvæðinu nánast eingöngu bolfiskur og stór hluti hans frystur, sem eykur verðmætið verulega. Botnfiskur er einnig uppistaðan í lönduðum afla á Norðurlandi eystra og á Suðurnesjum. Í hinum tilfellunum er magnið einfaldlega mun minna.

Samanburður við janúar á síðasta ári er ekki raunhæfur þar sem þá stóð verkfall sjómanna yfir allan mánuðinn.

Deila: