Útflutningsverðmæti fiskeldis er 7% útflutningstekna sjávarútvegsins

Deila:

Útflutningsverðmæti eldisfiskjar nam 14 milljörðum í fyrra og samsvarar 7 prósentum af útflutningstekjum í sjávarútvegi. Þorskurinn er verðmætasta tegundin með 83 milljarða útflutningsverðmæti. Þá loðna 18 milljarðar, en í þriðja sæti er fiskeldið með 14 milljarða. Útflutningur héðan á sjávarafurðum til Noregs nam í fyrra um 18,6 milljörðum króna. Lang mestur hluti þess er fiskimjöl og lýsi, sem fer í framleiðslu á fóðri til fiskeldis og sem er meðal annars selt hingað til lands.
Á þessu ári er áætlað að laxeldisframleiðslan  hér á landi geti numið um 15 milljörðum og á næsta ári nálægt 23 milljörðum króna. Er þá ótalin framleiðsla á öðrum tegundum, svo sem bleikju, regnbogasilungi, senegalflúru og hrognkelsaseiðum.

Þetta kemur fram í grein eftir Einar Kristinn Guðfinnsson, formann stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva í Morgunblaðinu í gær laugardag. Greinin er einnig birt á heimasíðu Landssambands fiskeldisstöðva og fer greinin í heild sinni hér á eftir:

Komið til að vera

einarkristinngudfinnsson

„Laxeldi er komið til að vera og er mikilvægur atvinnuvegur fyrir Vest- og Austfirðinga“, sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra nýlega í blaðaviðtali. Þessi orð ráðherrans eru í samræmi við yfirlýsingar fjölmargra stjórnmálamanna af ólíku pólitísku litrófi að undanförnu og endurspeglar það sem fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, líkt og Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra hefur oftsinnis áréttað.
Það er að vonum. Þrátt fyrir að fiskeldið sé enn að stíga fyrstu skrefin í framleiðslu, hefur fjárfesting í greininni þegar numið tugum milljarða króna, skapað störf og útflutningstekjur sem um munar og í rauninni snúið við byggðaþróun á svæðum, sem hafa verið í krappri vörn síðustu áratugina.

Fiskeldið í þriðja sæti
Í nýrri ársskýrslu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi kemur fram að útflutningsverðmæti eldisfiskjar hér á landi nam á síðasta ári um 14 milljörðum króna. Samsavarar þessi upphæð rúmum 7 prósentum af útflutningstekjum í sjávarútvegi. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að fiskeldið er enn á fyrstu stigum framleiðslunnar og ljóst að á næstu árum mun það aukast með hliðsjón af þegar útgefnum rekstrar og starfsleyfum.
Ef við berum þetta saman við aðrar fisktegundir árið 2017, sjáum við að þorskurinn var eins og áður verðmætasta tegundin og nam útflutnginsverðmætið um 83 milljörðum króna. Þar á eftir kemur loðnan, 18 milljarðar króna. Útflutningsverðmæti fiskeldis kemur síðan þar á eftir með 14 milljarða króna, en þess ber að geta að á bak við það eru lax, bleikja, regnbogasilungur, Senegalflúra, hrognkelsaseiði og fleiri tegundir.
Til viðbótar við útflutningsverðmætið, er umtalsverð sala innanlands, keypt ráðgjöf og þjónusta sem Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi meta á um tvo til fjóra milljarða.
Getum enn aukið vinnsluvirðið
Því bæta við að útflutningur héðan á sjávarafurðum til Noregs nam í fyrra um 18,6 milljörðum króna. Lang mestur hluti þess er fiskimjöl og lýsi, sem fer í framleiðslu á fóðri til fiskeldis og sem er meðal annars selt hingað til lands. Þarna getum við enn aukið vinnsluvirðið, því með vaxandi fiskeldi mun innlend fóðurframleiðsla aukast og íslensk verðmætasköpun að sama skapi. Ætla má að innan tíðar fari öll fóðurframleiðsla til íslensks fiskeldis fram hér á landi og gæti jafnframt orðið uppspretta útflutnings.
Þurfum að stórauka útflutningsverðmætið
Samtök atvinnulífsins hafa bent á að eigi íslenska efnahagslífið að vaxa áfram á sama hraða og að meðaltali síðustu áratugi, og útflutningsgreinar að halda sínu vægi í verðmætasköpuninni, þurfi útflutningsverðmæti að vaxa um 1.000 milljarða á næstu 20 árum. Það gerir um 50 milljarða á ári eða 1 milljarð á viku. Af þessu leiðir að við þurfum mjög á því að halda að auka útflutningsverðmæti okkar og fjölga stoðum útflutningsins til þess að bæta lífskjörin.
Fiskeldið getur orðið mikilvægur þáttur í þeirri vegferð og hefur allar forsendur til þess. Á þessu ári er áætlað að laxeldisframleiðslan ein og saman hér á landi geti numið um 15 milljörðum og á næsta ári nálægt 23 milljörðum króna. Er þá ótalin framleiðsla á öðrum tegundum, svo sem bleikju, regnbogasilungi, senegalflúru og hrognkelsaseiðum.
Þetta skiptir ekki síst miklu máli núna í ljósi þess að útflutningsverðmæti sjávarútvegs minnkaði á síðasta ári og horfur virðast á að vöxtur ferðaþjónustunnar fari minnkandi.
„Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein“
Það eru því orð að sönnu, að fiskeldi sé komið til að vera líkt og áréttað er með þessum orðum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar: „Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein sem felur í sér tækifæri til atvinnuuppbyggingar, en þarf að byggja upp með ýtrustu varúð í samræmi við ráðgjöf vísindamanna þannig að líffræðilegri fjölbreytni verði ekki ógnað.“
Einar K. Guðfinnsson, formaður stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva

 

Deila: