ESB varar við afleiðingum útgöngu Breta
Evrópusambandið hefur sent út viðvörun til útgerðarmanna og sjómanna sem stunda veiðar við Bretlandseyjar, að þeim kunni að verða vísað af miðunum, komi til þess að ekki náist samkomulag milli Bretlands og ESB. Sá möguleiki er þegar farinn að valda útvegsmönnum frá Frakklandi, Belgíu, Danmörku, Hollandi og Írlandi áhyggjum, en þetta eru helstu þjóðirnar sem stunda veiðar við Bretland.
Í bréfi til samtaka útvegsmanna og sjómanna segir að mikil óvissa ríki um hugsanlegar niðurstöður samninga vegna útgöngunnar. Þeir eru hvattir til að taka með í reikninginn lagalegar hliðar sem hafa verður í huga þegar Bretland er ekki lengur meðlimur í ESB.
Þar segir að í samræmi við Hafréttarsáttmálann verði útgerðir sem óski þess að stunda veiðar innan lögsögu annars lands, að semja um leyfi til þess.
Bretar hafa lýst því yfir að þeir vilji áfram vera aðili að hinni sameiginlegu fiskveiðistefnu ESB, sem felur í sér gagnkvæman aðgang að lögsögu beggja þar til í desember 2020, þegar útgangan tekur gildi. Að því loknu muni þeir taka full yfirráð yfir eigin lögsögu og önnur ríki sem vilji fá aðgang að fiskimiðum þeirra, verði að ná um það samningum við bresk stjórnvöld, hvert fyrir sig.
Náist ekki gagnkvæmir samningar muni Bretar ekki fá aðgang fyrir sjávarafurðir sínar í löndum innan ESB. Það felur í sér að útgerðir og fyrirtæki sem vilja selja afurðir sínar til landa innan ESB, verði að framvísa aflaskýrslu sem sýnir fram á að aflinn hafi verið tekinn í samræmi við lög og reglugerðir um fiskverndun og fiskveiðistjórnun.