Vöktunar er þörf
Landssamband Fiskeldisstöðva fagnar því að loks sé komin niðurstaða um uppruna þeirra tólf fiska sem Hafrannsóknarstofnun tók til rannsóknar haustið 2017 á grundvelli þess að þeir þóttu líklegir til að vera upprunnir úr eldi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kristjáni Þ. Davíðssyni, framkvæmdastjóra samtaka fiskeldisstöðvar. Þar segir ennfremur:
„Niðurstaðan er sú að sex fiskanna eru upprunnir úr eldi, fimm í útfalli/ósi Mjólkárvirkjunar í Arnarfirði og einn úr Laugardalsá í Ísafjarðardjúpi. Ekki er hægt að draga víðtækar ályktanir af svo litlu sýni, en niðurstaðan staðfestir þá sýn fagaðila, bæði innan LF og Hafrannsóknarstofnunar að vöktunar er þörf á ám á eldissvæðum, en það hefur komið fram að eldisfyrirtækin hafa lýst sig fylgjandi því og hafa boðist til að bera kostnað sem af vöktun hlýst og jafnframt hreinsa út hugsanlega eldislaxa sem í ár kynnu að ganga, en tækni til þess er til og þegar nýtt annars staðar. Íslenska tæknifyrirtækið Vaki hefur víða sett niður teljara- og myndavélabúnað, sem gæti hentað í tengslum við manngerða laxastiga eins og til dæmis við Laugardalsá í Ísafjarðardjúpi.
Fiskeldi hófst í Arnarfirði árið 2012 og milljónir fiska hafa verið aldir í firðinum síðan, sem skapað hafa útflutningstekjur sem nema á annan tug milljarða og yfir 300 störf við eldið og tengt því. Reynsla síðustu ár sýnir að sleppingar eru langt innan þeirra ströngu marka sem áhættumat Hafrannsóknarstofnunar gerir ráð fyrir. Þetta er í samræmi við þá stefnu fiskeldis á Íslandi að hafa umhverfismál og samfélagslega uppbygginu að leiðarljósi í þróun á sjálfbæru fiskeldi.“