,,Ætlaði aldrei aftur á sjó“

Deila:

,,Ég fór minn fyrsta túr á togaranum Haraldi Böðvarssyni AK árið 1983. Við fórum saman ég og sonur skipstjórans upp á hálfan hásetahlut hvor. Það var mokveiði af þorski en ég var lengst af drullusjóveikur og hét því um borð að fara aldrei á sjó aftur. Mér hefur gengið illa að efna það loforð því ég hef að meira eða minna leyti verið á sjó síðan.“

Þetta segir Skagamaðurinn Albert Sveinsson sem nú er skipstjóri á Víkingi AK, einu af nýjustu og fullkomnustu uppsjávarveiðiskipum íslenska flotans, í samtali á heimasíðu HB Granda. Albert segir að oft hafi vantað menn í afleysingar hjá Haraldi Böðvarssyni hf. á Akranesi á þessum árum og það hafi verið hæg heimatökin að fá pláss því faðir hans, Sveinn Sturlaugsson, hafi verið útgerðarstjóri fyrirtækisins.

Albert Sveinsson

,,Ég var sennilega á Haraldi Böðvarssyni AK í ein tvö ár áður en mér bauðst pláss á Höfrungi AK sem þá var tog- og nótaskip. Ég fór til að byrja með á rækjuveiðar en svo var skipt yfir á nót. Ég man það sennilega rétt að ég fór minn fyrsta loðnutúr 7. nóvember 1987. Guðjón heitinn Bergþórsson var þá skipstjóri á Höfrungi og hann bauð mér fast pláss sem ég þáði. Síðar tók Marteinn Einarsson við skipstjórninni. Sennilega hef ég verið ein átta til níu ár á Höfrungi en hluta tímans var ég í Stýrimannaskólanum. Þetta rennur allt saman í eitt og ég man ekki hvort ég byrjaði í skólanum haustið 1989 eða 1990. A.m.k. útskrifaðist ég eftir tveggja ára nám og fór þá sem 2. stýrimaður á Höfrung. Síðar var ég með Viðari Karlssyni á gamla Víkingi AK í þrjú ár.“

62 daga sigling til Tasmaníu

Albert segir að þegar hér var komið sögu hafi hann verið ráðinn 1. stýrimaður á Ingunni AK sem átti að fara að afhenda nýja. Var hann meðal þeirra sem sigldu skipinu heim.

„Marteinn Einarsson og Guðlaugur Jónsson, sem verið hafði með togarann Óla í Sandgerði GK voru skipstjórar á Ingunni. Marteinn tók nokkru síðar við skipstjórn á Engey RE sem var stór og glæsilegur frystitogari sem HB Grandi keypti til landsins. Gulli var áður skipstjóri á Elliða GK en á því skipi byrjaði ég minn skipstjóraferil. Ég var þá á Höfrungi en var beðinn um að taka einn túr sem skipstjóri á Elliða á loðnu. Ég man að þetta var um vetur. Ég var með skipið í skítaveðri á loðnumiðunum fyrir norðan land og gat ekki varist þeirri hugsun að ég væri betur kominn einhvers annars staðar. ,,Hvað ertu búinn að koma þér út í núna?“ hugsaði ég en allt gekk vel og nokkrum árum síðar, þegar ég var enn á Höfrungi tók ég alfarið við skipstjórninni og var með Elliða allt þar til að skipið var selt til Tasmaníu. Ég var fenginn til að sigla skipinu út og það tók ekki nema 62 daga. Ég ílengdist svo í Tasmaníu, fjölskyldan flutti út með mér í nokkurs konar frí, og ég var með Elliða á veiðum í eina þrjá til fjóra mánuði. Við vorum að veiða makríl í lögsögu Tasmaníu en einnig fisktegund sem heitir red bait en hún er aðallega notuð til eldis á túnfiski.“

Mikil viðbrigði að fá nýju skipin

Eftir heimkomuna til Íslands tók Albert aftur við sem fyrsti stýrimaður á Ingunni.

,,Í framhaldinu var ég svo beðinn um að taka við skipstjórn á Faxa RE. Það gerði ég þegar Gulli tók við nýsmíðinni Venusi NS. Síðar fluttist ég yfir á Ingunni og var með skipið á kolmunnaveiðum. Þegar Ingunn var seld tók ég við Lundey NS og var með hana á makríl þar til að við fórum út til að ná í nýjan Víking AK. Við komum heim rétt fyrir jólin 2015 þannig að ég er búinn að vera með skipið í bráðum tvö og hálft ár.“

Albert segir að það hafi verið mikil viðbrigði að fá nýju uppsjávarskipin í stað þeirra gömlu sem fyrir voru.

,,Tæknilega séð er mikið af búnaði skipanna mjög svipaður en við fengum þarna nýrri og fullkomnari tæki. Þá eru nýju skipin öflugri og mun burðarmeiri en gömlu skipin. Kæling aflans er sömuleiðis eins og best verður á kosið. Þá eru hliðarskrúfurnar miklu kraftmeiri. Það munar verulega um þær í brjáluðu veðri eins og oft gerir á veturna. Skipin eru háreist og taka á sig mikinn vind og við slíkar aðstæður munar verulega um aflið. Loks er aðbúnaður áhafna allt annar og betri en við áttum að venjast,“ segir Albert Sveinsson.

Deila: