,,Þetta er ekkert annað en kraftaverk“

Deila:

,,Upphaf þessa verkefnis var að Vilhjálmur, forstjóri HB Granda, boðaði mig til fundar þegar ákveðið hafði verið að smíða þrjá nýja ísfisktogara í Tyrklandi. Hann sagði að tekin hefði verið ákvörðun um að nýju skipin yrðu ekki byggð á grundvelli gamallar tækni og því þyrfti að bæta tæknistig og vinnulag um borð.“

Þetta segir Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skagans 3X, í samtali við heimasíðu HB Granda um aðdraganda þess merkilega þróunarferlis sem í raun hófst fyrir rétt um fimm árum síðan og lauk í vikunni með afhendingu Skagans 3X á Viðey RE. Líkt og Engey RE og Akurey RE er Viðey útbúin alsjálfvirku lestarkerfi og mjög fullkomnu vinnsludekki en Skaginn 3X annaðist innleiðingu búnaðarins.

Hugmyndir HB Granda byggðu meðal annars á því að í skipunum væri mannlaus lest en eitt af höfuðmarkmiðum verkefnisins var að bæta aðbúnað áhafnar og draga úr slysahættu. „Vilhjálmur spurði mig hvort þetta væri hægt og hvort við værum til í þróunarsamstarf um mannlausa lest. Ég verð að viðurkenna að ég hristi hausinn og taldi þetta í fyrstu vera óframkvæmanlegt. Það sem mér fannst hins vegar mjög spennandi og heillaði mig var nálgun Vilhjálms og HB Granda að byggja skip utan um lausn. Fyrir okkur sem framleiðanda tæknilausna höfum við alltaf þurft að glíma við það að koma okkar búnaði inn í fyrirfram skilgreint rými með þeim takmörkunum sem því fylgir,“ segir Ingólfur jafnframt.

Ný nálgun

Segja má að upphaf nýrrar nálgunar við meðhöndlun afla um borð í veiðiskipi hafi fyrst hafist með umbreytingu á Málmey SK. Skaginn 3X tók að sér, fyrir Fisk Seafood á Sauðárkróki, að hanna og smíða lausn á vinnsludekk skipsins, byggða á íslausri kælingu með SUB-CHILLING™ tækni.

,,Ég verð að viðurkenna að alsjálfvirkt lestarkerfi var ekki til í minni orðabók á þeim tímapunkti sem Vilhjálmur leitaði til mín. Hann tjáði mér að innan HB Granda hefðu menn mótað sér hugmyndir og unnið greiningarvinnu um hvernig svona kerfi gæti mögulega litið út. Niðurstaðan varð sú að hugmyndavinna hófst sem leiddi af sér frábæra og einstaka lausn,“ segir Ingólfur og  bætir við að nú fimm árum síðar hafi Skaginn 3X innleitt búnað í fimm íslensk ferskfiskskip og þróunarverkefnið sé senn á enda.

Til að gefa smá hugmynd um ferlið sem fiskurinn fer í gegnum, þegar búið er að losa hann í móttöku skipsins, má nefna að einungis er tekið á fiskinum einu sinni, við blóðgun og slægingu, en að öðru leyti er ferlið sjálfvirkt. Fiskurinn er tegunda- og stærðarflokkaður með sjálfvirkum hætti og 320 kg skammtar búnir til. Samhliða því að skammtar eru búnir til hefst blæðiferli fisksins. Eftir tímastillt blæðiferli flyst skammturinn í kæliskrúfur þar sem blæðingu lýkur og kæling hefst með -1°C köldum sjó. Eftir u.þ.b. 45 mínútna kælingu við -1°C flyst fiskurinn yfir í seinna þrep kælingar þar sem hann er undirkældur við -4°C í u.þ.b. fimm mínútur. Eftir þetta kæliferli er hitastig fisksins orðið -1°C og skammtarnir eru því næst fluttir á færiböndum í efri lest skipsins þar sem hver skammtur fer í kar sem sjálfvirkt flyst ofan í lest. Hitastig lestarinnar er -1°C og næst þannig að viðhalda kjörhitastigi fisksins alla veiðiferðina. Þegar skip kemur til hafnar er tæplega 200 tonnum af afla landað með sjálfvirkum hætti á um fjórum klukkustundum.

,,Niðurstaðan hvað gæði hráefnisins varðar er að fiskurinn er losminni, hvítari og hann vinnst betur ásamt því að vinnuaðstæður sjómanna eru stórbættar,“ segir Ingólfur en hann dregur enga dul á að þetta farsæla samstarfsverkefni sé í dag helsta stolt Skagans 3X.

Hreint tækniundur

,,Þróunarverkefni af þessari stærðargráðu hefði ekki verið framkvæmanlegt án virks samstarfs við útgerðir og áhafnir skipanna. Ég vil meina að þetta sé stærsta þróunarverkefni sem hefur átt sér stað í íslenskum sjávarútvegi. Að mínu mati er íslaus kælitækni og sjálfvirkt lestarkerfi kraftaverki líkast, hreint tækniundur sem á engan sinn líkan,“ segir Ingólfur og tekur sérstaklega fram að samstarf allra, sem að málinu komu, sé lykillinn að velgengni.

,,Þar vil ég ekki síst nefna starfsmenn HB Granda og FISK Seafood, áhafnir allra skipanna sem og rannsóknafyrirtækin og -sjóðina sem studdu við verkefnið. Við nutum dyggrar aðstoðar rannsóknafyrirtækjanna Ice Protein og Matís ásamt því að hljóta styrki frá Tækniþróunarsjóði og AVS. Þá hafi fjöldi samstarfsfyrirtækja Skagans 3X einnig komið að verkefninu, sum hver að mjög afmörkuðum og sérhæfðum hlutum þess. Í þessu verkefni höfum við einnig notið góðs af skattaívilnanakerfi Rannís og fyrir allt þetta ber að þakka“ segir Ingólfur Árnason að lokum.

Deila: