Veiddu makríl innan um borgarísinn

Deila:

Geir Zoega byrjaði á sjó hjá Gjögri hf. og endaði í Grænlandi. „Var á Áskeli fyrstu árin, svo Hákoni, svo aftur á Áskeli með Sveini Ísaks. Var stýrimaður hjá honum. Svo seldu þeir skipið og ég fylgdi bara einhvern veginn með.“ Hann var svo eitt ár hjá Síldarvinnslunni, sem síðan seldi skipið inn í fyrirtæki sem hét East Greenland Codfish. Það heitir Polar Pelagic í dag og Síldarvinnslan á þriðjung í því, en afganginn á Polar Seafood, sem er stórt grænlenskt fyrirtæki.

Polar Amaroq er öflugt vinnsluskip fyrir uppsjávarveiðar og hét upphaflega Garðar og var gert út frá Noregi. Hann var keyptur þaðan fyrir fimm árum. Útgerðin er grænlensk og gert er út á heimildir frá Grænlandi. Þessi útgerð byrjaði að veiða loðnu 1993 og hefur verið sú eina grænlenska sem hefur sinnt þeim uppsjávarveiðum frá Grænlandi þar til fyrir þremur árum. Þá fóru hinir að koma.

Líkar vel að vinna með Grænlendingum

Geir Zoega

„Þetta hefur verið svolítið basl. Fyrstu árin sem ég var á bátnum, vorum við aðeins 68 daga í drift Svo kom makríllinn að Austur-Grænlandi og teygði á vertíðinni. Heimildirnar sem við höfum rétt sleppa fyrir eitt skip. Það er loðna, makríll, síld við Færeyjar og aðeins af kolmunna. Við náum með þessu að vera næstum heilt ár í drift, svona 10 mánuði.

Við erum núna komnir í kerfi, þar sem er mánuður á sjó og annar í landi og sömu kjör og á íslensku skipunum. Ég var í Grænlandi núna nýlega og það er mikil ásókn í pláss hjá okkur þar, svo það lítur út fyrir að við séum að gera eitthvað gott,“ segir Geir.

Geir býr á Grænlandi og er flokkaður sem Grænlendingur, en áhöfnin er nokkuð blönduð, Grænlendingar, Danir, Íslendingar og Færeyingar eru yfirmenn en áhöfnin að öðru leyti að mestu Grænlendingar. Geir segir mjög gott að vinna með Grænlendingunum. Þeir hugsi aðeins öðruvísi en við, „en þetta eru hörku sjómenn. Þetta er annar kúltúr og maður þarf að hugsa eftir öðrum brautum, sem er bara eðlilegt. Vinnukúltúrinn er einfaldlega breytilegur eftir löndum.  Ég er búinn að vinna með þeim í 10 ár og líkar það rosalega vel,“ segir Geir

Loðna út um allt

Geir Zoega Polar Amaroq 7

„Það gekk bara vel á loðnunni í vetur, en það hefði mátt vera meiri kvóti. Þeir mældu aldrei nóg. Það er loðna út um allt. Nauðsynlegt er að leggja meiri kraft í mælingarnar, rannsaka þetta meira. Mælingarnar sem slíkar eru góðar, en ekki nógu víðtækar. Ég öfunda þá ekkert af þessu verkefni Það er ekki auðveldasta verkefni í heimi. Nú er loðna að hrygna uppi í Kummiut í Grænlandi, þannig að loðnan er út um allt. Steingrímsfjörðurinn er fullur af loðnu núna og loðna úti fyrir öllu Norðurlandi ennþá. Því er alveg grátlegt ekki skuli verið að vakta þetta og skoða. Afi minn er Strandamaður og varð 100 ára í haust. Hann hefur sagt mér að þeir hafi í gamla daga verið að draga fyrir loðnu í fjörunni á Reykjarfirði á Ströndum. Þetta er því ekkert nýtt í sögunni, en kannski nýtt fyrir okkur sem yngri erum.“

Leita með trollið úti

Geir líst vel á makrílinn. „Hann er brellinn og þetta er stórt hafssvæði austan við Grænland, en það kemur makríll í sumar. Það er miklu erfiðara að eiga við hann þar en við Ísland. Hann getur alveg horfið, en samt verið til staðar. Í fyrra voru menn að draga og sáu ekki neitt og við fengum 200 til 300 tonna hol. Þá var hann bara svo ofarlega í sjónum að hann var fyrir ofan botnstykkið og sást því ekki. Svolítið erfitt að veiða fisk sem maður sér ekki. Erfitt að leita að honum, maður verður bara að leita með trollið úti. Við vorum undir lok vertíðar að fara á síld, héldum að makríllinn væri búinn. Þá hittum við á makríl innanum borgarísjaka í sjó sem var mínus ein gráða. Við tókum þar 1.200 tonn á tveimur sólarhringum. Það var svolítið magnað. Ég man sérstaklega eftir að við þurftum að beygja frá einum jakanum, en trollið var fullt af fiski. Það er svolítið merkilegt að vera að veiða hlýsjávarfisk innan um borgarís í ísköldum sjó.

Ég er viss um að það veiðist makríll í sumar og einhvern tímann verður samið og þá verður kannski hægt að veiða hann annars staðar,“ segir Geir.

Löndum þar sem best hentar

Úthaldið er loðna í upphafi árs, þá tekur kolmunni við, síðan makríll og loks síld og svo mögulega kolmunni aftur í desember. Ef kvótinn er nægur reynum að skilja einn túr eftir fyrir lok ársins, svo við höfum eitthvað að gera í desember. Loðnan er að mestu veidd við Ísland, Makríllinn við Grænland, kolmunni megum við veiða innan lögsögu Færeyja og í alþjóða lögsögunni og síldina líka.“ Kolmunnanum landa þeir í Danmörku í Skagen, en loðnu er landað hjá Síldarvinnslunni, sömuleiðis frystivöru og hrati. „Við löndum þar sem hentar okkur best,“ segir Geir Zoega.

Ekki hægt að toppa Vilhelm

„Það sem stendur upp úr núna er loðnuvertíðin. Hún var mjög góð. Við frystum 6.500 tonn, sem var mjög gott. Við erum að taka 30.000 til 35.000 alls af þessum fjórum tegundum á ári. Það veltur mest á loðnunni sem er um 60% af magninu. Ég veit ekki nákvæmlega hvert aflaverðmætið er. Ætli það rokki ekki á milli tveggja og þriggja milljarða. Við erum svona á pari við íslensku frystiskipin, nema Vilhelm, sem er alltaf bestur. Það er aldrei hægt að toppa hann. Við erum bara ánægðir og sáttir meðan þessi verkefni haldast. Það byggist meðal annars á að makríllinn veiðist áfram innan grænlensku lögsögunnar, það gæti brugðist.“

Viðtal Hjörtur Gíslason.

Viðtalið birtist fyrst í Sóknarfæri í sjávarútvegi, blaði sem Athygli gefur út.

 

Deila: