Mikið eftirlit hjá Rússum

Deila:

Frystitogarinn Blængur NK hélt til veiða í Barentshafi í lok aprílmánaðar og um sjómannadagshelgina lá skipið í höfn í Kirkenes í Noregi en áhöfnin kom fljúgandi heim. Gert er ráð fyrir að öll áhöfnin, 26 manns, verði komin til Kirkenes á morgun og um kvöldið mun skipið halda til veiða á ný en það á eftir að veiða um 500 tonn í Barentshafinu.

Theodór Haraldsson var skipstjóri á Blængi fyrri hluta veiðiferðarinnar í Barentshafinu en nú tekur Bjarni Ólafur Hjálmarsson við skipstjórninni. Heimasíða Síldarvinnslunnar bað Theodór í gær að lýsa því hvernig veiðarnar í Barentshafinu færu fram.

„Veiðarnar þarna eru hefðbundnar og vinnslan einnig. Það sem er hins vegar öðruvísi en venjulega er veiðisvæðið og rússneska eftirlitið sem haft er með veiðunum. Þegar við komum inn í rússneska lögsögu mætum við rússnesku eftirlitsskipi á svonefndum check point. Frá eftirlitsskipinu koma fjórir menn um borð til okkar. Þeir yfirfara alla pappíra nákvæmlega og skoða vegabréf skipstjórans. Einn þessara manna verður síðan eftir um borð hjá okkur og fylgist með veiðum og vinnslu alla veiðiferðina. Hann sinnir starfi sínu af nákvæmni og gerir kröfu um að allt bókhald sé samviskusamlega og rétt fært. Ef einhverju skeikar gerir hann strax athugasemdir.

Eftirlitsmaðurinn okkar var afar þægilegur þó hann sinnti starfi sínu vel en allir þeir sem vinna hjá rússnesku strandgæslunni eru í raun hermenn. Áður en við héldum til Kirkenes þurftum við aftur að fara á check point til móts við eftirlitsskip og þá komu þrír menn um borð til okkar og fóru yfir alla pappíra ásamt eftirlitsmanninum okkar. Þeir stimpluðu síðan pappírana og að því loknu var ekkert því til fyrirstöðu að við gætum haldið til norskrar hafnar. Skipinu var síðan lagt við bryggju í Kirkenes og við flugum heim að undanskildum tveimur vélstjórum. Þessir vélstjórar hafa unnið í skipinu í Kirkenes og aðrir tveir vélstjórar koma þangað í dag og leysa þá af. Aðrir í áhöfninni munu síðan fljúga út á morgun og þá mun allt sem átti sér stað í fyrri hluta veiðiferðarinnar endurtaka sig hvað eftirlit varðar,“ segir Theodór.

Deila: