Tímabært!

Deila:

„Það var tímabært að yfirvöld og atvinnuveganefnd gerðu sér grein fyrir skaðsemi hás veiðigjalds á yfirstandandi fiskveiðiári. Ríflega tvöföldun á gjaldinu á milli fiskveiðiára, samhliða verulega lakari afkomu, miklum kostnaðarhækkunum og sterkara gengi, er úr öllu hófi.“

Svo segir meðal annars í umsögn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi um frumvarp til laga um lækkun veiðigjalda. Umsögnin er mjög ítarleg þar sem farið er yfir helstu þætti sem áhrif hafa á rekstur sjávarútvegsfyrirtækja. En í umsögninni segir meðal annars svo:

„Það hefur legið ljóst fyrir frá því í september 2017, er nýtt fiskveiðiár hófst, að veiðigjaldið myndi reynast mörgum fyrirtækjum ofviða. Veiðigjald á margar mikilvægar tegundir rúmlega tvöfaldaðist þá í einu vetfangi. Veiðigjald á þorsk hækkaði til að mynda um 107%, úr 11,09 krónum í 22,98 krónur. Þess eru dæmi að fyrirtæki hafi þurft að sæta allt að fimmföldun á gjaldinu. Hjá mörgum fyrirtækjum er veiðigjaldið nú orðið næststærsti einstaki gjaldaliðurinn, á eftir launum. Hækkunin kom sér, eðli máls samkvæmt, illa fyrir öll fyrirtæki. Þó má vera ljóst að fyrirtæki eru misvel í stakk búin til þess að takast á við svo mikla hækkun á einum gjaldalið. Jafnframt hafa mörg þeirra sem hvað lökust eru stödd fengið á sig mesta hækkun.

Með óbreyttri álagningu hefðu sjávarútvegsfyrirtæki í raun þurft að greiða allt að 60% tekjuskatt á þessu ári, þegar veiðigjaldi hefur verið bætt við tekjuskattinn. Það hlýtur hver maður að sjá, að ekkert fyrirtæki verður rekið til lengdar undir þessum álögum. Gjaldtakan skaðar ekki aðeins sjávarútvegsfyrirtæki, heldur dregur hún úr samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs og kemur þannig í veg fyrir að sjávarútvegur geti áfram lagt til hagvaxtar og hagsældar landsins með mikilvægum gjaldeyristekjum. Sú þróun gengur í berhögg við þann vilja stjórnvalda, sem fram kemur í stjórnarsáttmála, um að tryggja þurfi samkeppnihæfni íslensks sjávarútvegs á alþjóðlegum mörkuðum og að hann geti áfram staðið að nýsköpun og vöruþróun til að auka virði afurðanna.“

Deila: