Flytur erindi um aflareglu fyrir loðnu

Deila:

Fimmtudaginn 7. júní mun Höskuldur Björnsson flytja erindið Aflaregla loðnu á málstofu Hafrannsóknastofnunar. Málstofan verður haldin í fyrirlestrarsal á 1. hæð Skúlagötu 4 og verður jafnframt streymt á YouTube-rás stofnunarinnar. Málstofan hefst kl. 12:30.

Frá árinu 1983 – 2015 var í gildi aflaregla fyrir loðnu sem gerði ráð fyrir að skilja eftir 400 þúsund tonn til hrygningar.  Á árinu 2009 fór aflareglan í skoðun hjá Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES) og var hún ekki talin standast varúðarsjónarmið þar sem ekki var tekið tillit til óvissu í mælingum á stofninum og náttúruleg afföll (afrán) í framreikningum voru talin of lág. Hófst þá vinna við að skoða mögulegar nýjar leiðir varðandi nýtingu loðnustofnsins sem stæðust varúðarsjónarmið. Í þeirri vinnu var m.a. tekið mið af þeim athugasemdum sem komu fram í rýnivinnu ICES árið 2009. Í janúar 2015 fór ICES yfir tillögu að nýrri aflareglu og mat hana í samræmi við varúðarsjónarmið. Íslendingar, Grænlendingar og Norðmenn tóku aflaregluna upp árið 2015 og hefur hún verið í gildi fyrir síðastliðnar 3 loðnuvertíðir.

Í fyrirlestrinum verður lýst mun á gömlu og nýju aflareglunni, bæði varðandi óvissu í mælingum og áætlað afrán. Einnig verður rætt um möguleika á að meta með öðrum aðferðum magn loðnu sem hrygnir hvert ár.

 

 

Deila: