Þungt í fyrra en betra í ár

Deila:

Rekstur loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði hefur gengið vel á þessu ári. Tekið var á móti 50.000 tonnum uppsjávarfiski af erlendum skipum auk eigin afla og mikið fryst af loðnuhrognum. Hátt gengi krónunnar setur þó áfram strik í reikninginn.

Hátt gengi og 50 daga verkfall

Afkoma fyrritækisins á síðasta ári var mun lakari en árið áður. Hagnaður var nú 380 milljónir á móti 1,6 milljarði króna árið áður. Veltufé frá rekstri var 810 milljónir á móti 1.250 árið áður. Félagið er orðið sterkt, eiginfjárhlutfall er 49% og eigi fé 7,4 milljarðar. „Skýringin er fyrst og fremst sú að við erum að keyra á 15% sterkara gengi allt árið en árið áður. Þá varð veruleg verðlækkun á mjöli og lýsi. Mjölið lækkað í íslenskum krónum um 40% í fyrra vor og lýsið um 30%. Verðið lagaðist aftur í lok ársins en aðalframleiðslan er alltaf á fyrri hluta ársins. Síðan varð verðfall á síldarafurðum svo eitthvað sé nefnt. Og ekki má gleyma 50 daga verkfalli,“ segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar.

Friðrik Mar Guðmundsson flott mynd

„Verkfallið hafði veruleg áhrif, því þegar menn fóru af stað aftur, var miklu meira af bolfiski á markaðnum verðið var lágt á ferskum fiski inn á Frakkland. Þetta fór því alveg eins og menn spáðu, af þessu hlaust stórtjón og svo gerðist það líka að Frakkarnir fóru bara að nota uppþýddan fisk í staðinn fyrir þann ferska, þegar hann fékkst ekki. Þeir gera það áfram ef vöruna vantar. Fyrir vikið hækkar ekki verðið eins og var áður ef fiskinn skorti. Nú þýða þeir bara upp fisk ef þá vantar hann.

Þrátt fyrir verkfall var tekið á móti móti miklu af hráefni. Við tókum á móti alls 83.000 tonnum á móti 79.000 tonnum árið áður.“

Þrjú skip gerð út

Loðnuvinnslan gerir út þrjú skip, Ljósafell, sem er 44 ára gamall togari. „Hann er tvíendurbyggður og er í mjög góðu standi og er eyðslugrannur eins og nýju skipin. Svo er það Hoffell, sem við keyptum fyrir fjórum árum. Það er 19 ára skip í dag en var í mjög fínu standi þegar við keyptum það frá Noregi og er enn. Loks er það Sandfell, áður Óli á Stað, sem var keyptur með aflaheimildum frá Grindavík, 30 tonna plastbátur í litla kerfinu. Þar hefur gengið ævintýralega vel frá fyrsta degi. Við veiddum á bátinn 2.010 tonn í fyrra og 1.960 tonn árið áður. Þó var báturinn stopp í 50 daga vegna verkfalls í fyrra og við byrjuðum að gera hann út 10. febrúar árið áður.  Það eru átta manns í áhöfninni, fjórir um borð hverju sinni. Þeir Grindvíkingar sem komu með skipinu hafa verið að mestu á því síðan.“

Loðnuvinnslan rekur fiskimjölsverksmiðju og frystingu á uppsjávarfiski. Hún er eini aðilinn í landinu sem enn saltar síld og loks er bolfiskvinnsla á staðnum. Um eitt og hálft ár er síðan tækjabúnaður í frystihúsinu var endurnýjaður og meðal annars keyptar vatnsskurðarvélar. Bolfiskurinn er unninn bæði ferskur til útflutnings og frystur. Ferski fiskurinn fer mest utan með Norrænu og Eimskip, Norræna fer frá Seyðisfirði á miðvikudögum yfir veturinn og fimmtudögum yfir sumarið og Eimskip tekur fiskinn á föstudögum. Aukapantanir fara síðan utan með flugi ef með þarf.

Mikið tekið af erlendum skipum

„Við tökum á móti miklu af uppsjávarfiski af erlendum skipum og erum þar stærstir hér á landi. Í hitteðfyrra vorum við með tvo þriðju af hráefni lönduðu af erlendum skipum hér á landi og í fyrra lönduðu útlendingar 38.000 tonnum hjá okkur. Á þessu ári erum við búnir að fá rétt um 50.000 tonn af erlendum skipum, sem eru aðallega færeysk og norsk skip. Við eru kvótalitlir í uppsjávarfiski og því eru þessi viðskipti okkur mjög mikilvæg til að vinna upp í fastan kostnað.

Í fyrra fór loðnan frá Færeyingunum mikið í hrognatöku og núna í frystingu fyrir markaðinn í Japan og sömuleiðis frá norsku bátunum. Í ár tókum við svo á móti níu bátum í hrognatöku úr Barentshafi, en það höfum við verið að gera annað slagið.“

Of hátt veiðigjald á þorski og ýsu

Aðspurður um afkomuna á þessu ári segir Friðrik að veiðigjald í bolfiski, þorski og ýsu, sé mjög hátt. Það hafi tvöfaldast fyrsta september síðastliðinn.  „Það er mikilvægt að það lækki og vonandi verður það á næsta fiskveiðiári. Samkeppnisstaða við útgerðir í nágrannalöndum okkar er heldur slæm. Allur innlendur kostnaður hefur aukist mjög mikið. Veiðigjaldið hefur verið að hækka svo og allur kostnaður og svo er verið að keyra á 15% sterkara gengi en var fyrir þremur árum og enn sterkara en var fyrir fjórum og fimm árum. Það er bara stutt síðan evran var í 150 krónum og dollarinn í 130. Í maí fyrra var evran 111 krónur og dollarinn 98 krónur. Dollarinn er nú í 104 krónum og evran 123 og þar munar ansi miklu.

Þegar verið er að leggja veiðigjald á verður að taka mið af afkomunni. Það er alltaf verið að miðað við tveggja ára gamlar tölur, sem gengur ekki. Ég hef verið þeirrar skoðunar lengi,  en á þar kannski fáa skoðanabræður, að reikna eigi veiðigjaldið út frá tekjuskattstofninum. Þá er veiðigjaldið alltaf í takt við afkomuna á hverjum tíma. Þá fær ríkið meira og fyrr ef afkoman er góð og ef það er á hinn vegin er gjaldið lækkað strax.

Gengið ágætlega í ár

Það hefur gengið ágætlega það sem af er ári. Við framleiddum mikið af hrognum og við höfum tekið á móti miklum afla, þannig að afkoman er ágæt það sem af er ári. Framhaldið ræðst af því umhverfi sem við erum í og krónan má alls ekki styrkjast meira. Makrílkvótinn er nú 20% minni en í fyrra og síldarverð verður frekar lágt. Í fyrra veiddu Íslendingar bara 39.000 tonn úr íslenska síldarstofninum. Þegar mest var, veiddum við 150.000 tonn úr honum. Kvótinn í ár hefur enn ekki verið gefinn út, en hann verður væntanlega ekki mikill. Fiskifræðingarnir segjast hafa fundið meira af íslensku sumargotssíldinni nú en í fyrra. En það er sýking í stofninum sem heldur honum niðri og veiði úr honum er lítil þessi árin,“ segir Friðrik Mar Guðmundsson.

Viðtal Hjörtur Gíslason. Viðtalið birtist fyrst í Sóknarfæri.

Loðnuvinnslan Hoffellið með pokann á síðunni

Deila: