Veiðidögum á strandveiðum fjölgar

Deila:

Veiðidögum strandveiðibáta fyrstu vikuna í júní hefur fjölgað verulega miðað við sömu daga í fyrra. Þeir eru nú 1.148 en voru í fyrra 880. Fjölgunin er eingöngu á svæðum B,C og D, en á svæði A, þar flestir bátar róa hefur þeim fækkað. Aflinn á þessu tímabili er jafnframt meiri en í fyrra, eða 730 tonn á móti 548 í fyrra. Yfirleitt eru bátarnir að ná leyfilegum dagskammti sem er 650 tonn af þorski.

Á svæði A sem nær frá Snæfellsnesi norður á Vestfirði réru 184 bátar á umræddu tímabili í júní, sem er um 30 færri en í fyrra. Veiðidagar eru 453 sem er nokkru færri en í fyrra og heildaraflinn 290 tonn, sem er samdráttur um 55 tonn. Afli á bát nú er 1,6 tonn, litlu minni en í fyrra.

Á svæði B, frá Ströndum og fyrir Norðurlandi, réru nú 78 bátar eða 31 færri en í fyrra. Veiðidagar eru hins vegar 183 sem er aukning um 76. Aflinn er nú er 106 tonn, sem er ríflega tvöfalt meira en í fyrra. Afli á bát er nú 1,4 tonn en var á sama tíma í fyrra 464 kíló.

Á svæði C, fyrir Austurlandi, hafa 75 bátar nú róið og er það 12 bátum færra en í fyrra. Veiðidagar voru nú 203 á móti 142 í fyrra. Afli nú er 132 tonn sem nánast tvöfalt meiri. Afli á bát er 1,8 tonn á móti 772 kílóum í fyrra. Afli róðri er nú um 651 kíló, en var í fyrra 473.

Á svæði D, fyrir Suðurlandi, hafa 109 bátar róið og fjöldi veiðidaga er 309. Bátarnir eru nú 12 fleiri en í fyrra og veiðidagar meira en tvöfalt fleiri. Afli á bát er nú 1,8 tonn á móti 883 kílóum í fyrra og nú eru bátarnir að ná leyfilegum skammti nákvæmlega.

Þessar breytingar á sókn og afla má rekja til þeirra breytinga, sem gerðar voru á strandveiðikerfinu fyrir þetta ár. Þær fela í sér að hver bátur má róa 12 daga í mánuði og geta eigendur þeirra valið daga innan þeirra tímamarka sem um veiðarnar gilda. Þær má aðeins stunda frá mánudegi til og með fimmtudags og mega róðrar aðeins vera einn á dag, samtals 14 tímar. Nú er ekki, eins og áður, ákveðinn heildarskammtur fyrir báta á hverju svæði og veiðar stöðvaðar, þegar honum var náð. Veiðar verða ekki stöðvaðar fyrr en leyfilegu heildarhámarki er náð sem er 10.200 tonn.

 

 

Deila: