Næst minnsti humarkvóti sögunnar

Deila:

Hafrannsóknastofnun ráðleggur að humarafli fiskveiðiárið 2017/2018 verði ekki meiri en 1.150 tonn. Það verður næstminnsti kvóti í sögu humarveiða við Ísland eftir að veiðar voru takmarkaðar með kvótakerfinu, en minnstur varð humaraflinn árið 1995, 1.027 tonn.

Humarveiðar við Ísland eru fyrst skráðar 1958 og þá varð aflinn 728 tonn og engin takmörkun á veiðunum. Veiðarnar jukust síðan hratt urðu mestar 1963 5.550 tonn. Fiskveiðiárið 2010/2011 var kvótinn 2.100 tonn og hefur lækkað ár frá ári síðan.

Veiðidánartala hefur verið metin lág undanfarin ár og er undir skilgreindum gátmörkum (FMSY). Nýliðun hefur minnkað síðan 2005 og hefur aldrei verið metin eins lítil og nú. Viðmiðunarstofn hefur minnkað hratt undanfarin ár og hefur ekki verið lægri frá 1980. Hlutfall stórhumars er enn hátt en hefur minnkað frá 2009.

Nýliðun hefur minnkað mikið frá 2005 og er í sögulegu lágmarki. Verði ekki breyting þar á má búast við áframhaldandi minnkun ráðlags afla humars.

Afli nær tvöfaldaðist á árunum 2004–2010 þegar hann náði 2.500 tonnum. Aflinn minnkaði eftir það, niður í tæp 1400 tonn árið 2016. Sókn í stofninn hefur verið nokkuð stöðug frá árinu 2009 en aflabrögð hafa farið versnandi. Humar er alfarið veiddur í humarvörpu.

Mat á fjölda humarhola fór fram í fyrsta sinn á síðasta ári með talningu á sniðum. Fjöldi hola var metinn vera 535 milljónir og stærð veiðislóðar 5.989 km2 . Meðalþéttleiki var 0.09 holur á fermetra.

Deila: