Undirbúa innleiðingu persónuverndarlaga

Deila:

Rétt fyrir þinglok var samþykkt lagafrumvarp um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Byggir frumvarpið á Evrópulöggjöf og munu þessi nýju lög gera auknar kröfur um meðferð persónuupplýsinga hjá fyrirtækjum og stofnunum.

Hjá Síldarvinnslunni hefur undirbúningur fyrir gildistöku þessara laga staðið yfir um nokkurt skeið og hefur Sigurður Ólafsson verkefnastjóri leitt þá vinnu. En hvaða áhrif hafa lög eins og þessi á fyrirtæki eins og Síldarvinnsluna? Sigurður segir í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar, að miðað við ýmis önnur fyrirtæki og stofnanir sé tilkoma laganna ekki mikið áhyggjuefni fyrir fyrirtæki eins og Síldarvinnsluna.

Sigurður Ólafsson

Sigurður Ólafsson

„Starfsemi Síldarvinnslunnar gengur ekki út á vinnslu persónuupplýsinga að neinu leyti og þær persónuupplýsingar sem þarf að skrá og vinna með eru yfirleitt ekki viðkvæmar. Auðvitað þarf að skrá ýmislegt um starfsmenn, svo sem launaupplýsingar svo unnt sé að greiða rétt laun og einnig sögu starfsmanna hjá fyrirtækinu og fleira slíkt. Einnig þarf í sumum tilvikum að skrá persónuupplýsingar um viðskiptamenn en þær eru mjög takmarkaðar. Hjá Síldarvinnslunni er í engum tilvikum safnað meiri upplýsingum um fólk en brýna nauðsyn ber til og hafa verður í huga að lögin eiga ef til vill helst við fyrirtæki og stofnanir sem þurfa að vinna með mjög viðkvæmar persónuupplýsingar svo ekki sé talað um fyrirtæki sem eiga í viðskiptum með slíkar upplýsingar og nægir þar að nefna Facebook og Google,“ segir Sigurður.

Sigurður segir að öll fyrirtæki og stofnanir þurfi samkvæmt lögunum að hafa fullkomna vitneskju um hvar persónuupplýsingar séu skráðar auk þess sem tryggt verði að þeim sé safnað í lögmætum tilgangi og einungis þeir sem nauðsynlega þurfi hafi aðgang að þeim. „Það þarf að fara yfir öll kerfi fyrirtækja og stofnana og kortleggja hvaða persónuupplýsingar er þar að finna, fara yfir alla meðferð upplýsinganna og tryggja að kröfum laganna verið uppfyllt. Eftir að lögin taka gildi þarf til dæmis að vera unnt að afhenda starfsfólki afrit af þeim upplýsingum sem fyrirtækið á um viðkomandi og ef fólk fer fram á það þá þarf að vera unnt að eyða upplýsingunum eða leiðrétta þær svo fremi að það stangist ekki á við önnur lög eins og til dæmis bókhaldslög. Á þessu sést að það þarf að vinna talsvert í þessum málum hjá fyrirtæki eins og Síldarvinnslunni þó vinnan sé mun viðameiri og flóknari hjá ýmsum öðrum fyrirtækjum og stofnunum. Við hjá Síldarvinnslunni stefnum að því að vera með allt klárt í þessum efnum þegar lögin taka gildi, sem væntanlega verður á haustmánuðum,“ segir Sigurður Ólafsson.

 

Deila: