Tvöfalt hærri ráðgjöf í þorski við Færeyjar

Deila:

Alþjóða hafrannsóknaráðið, ICES, hefur kynnt nýjustu ráðgjöf sína fyrir veiðar á þorski innan lögsögu Færeyja. Ráðgjöfin hljóðar þannig að þorskveiðar á næsta ári verði að hámarki 10.180 tonn. Það er ríflega tvöföldun frá ráðgjöfinni fyrir þetta ár.

Þorskafli innan lögsögu Færeyja hefur undanfarin ár verið mun meiri en ráðlagt hefur verið. Á þessu ári er hann áætlaður 6.631, sem er um 2.000 tonnum umfram ráðgjöfina. Það sem af er öldinni hefur þorskafli verið í lágmarki við Færeyjar.

Ráðgjöf ICES byggir á nýjustu stofnstærðarrannsóknum Færeyinga og endurspeglar batnandi stöðu lífkerfisins á landgrunni Færeyja. Hrygningarstofn þorskins er í hægum vexti og er hann nú kominn upp fyrir varúðarmörk.  Dregið hefur úr veiðiálagi á síðustu árum, sem skýrist af því að þorskurinn tekur beitu illa, þegar mikið er að hafa af náttúrulegu æti.

Nýliðun í þorski hefur verið undir meðaltali fá árunum 2009 til 2015, en árgangarnir frá 2016 og 2017 eru metnir yfir meðallagi.

Þá er ráðlagt að afli af ýsu fari ekki yfir 5.078 tonn og er það aukning frá síðustu ráðgjöf um 11%. Hrygningarstofn ýsunnar er einnig að braggast. Hann er nú metinn 25.312 tonn, og er því kominn upp fyrir varúðarmörkin. Vöxturinn í hrygningarstofninum stafar af innkomu nýrra árganga, sem eru metnir vel yfir meðaltali. Nýliðun hefur verið slök undanfarin ár, en árgangarnir 2016 og 2017 skera sig úr og eru vel yfir meðaltali síðustu ára.

Loks er ráðlagt að veiði á ufsa verði ekki meiri en 27.280 tonn, sem er samdráttur um 22% miðað við ráðgjöf þessa árs. Hrygningarstofn ufsans hefur staðið vel síðan 2014 og er stærð hans yfir varúðarmörkum. Nýliðun í stofninum er þó undir meðallagi og veiðiálag meira en það, sem talið er gefa bestu útkomuna til lengri tíma litið.

 

 

 

Deila: